56 skráðir jöklar hafa horfið frá síðustu aldamótum
Í dag, sunnudaginn 18. ágúst verður reistur skjöldur þar sem áður var sæti Okjökuls, en hópur vísindamanna og kvikmyndagerðarmanna stendur að viðburðinum til að benda á áhrif loftslagsbreytinga. Ok var afskráður sem jökull haustið 2014 þegar ljóst var jökullinn var hættur að skríða undan eigin þunga. Í tilefni viðburðarins á sunnudaginn, sem kallaður er „Minningarstund um Ok“, hefur Oddur Sigurðsson jarðfræðingur skrifað grein um Ok. „Það mætti kalla þetta minningargrein um jökulinn, því hann er ekki jökull lengur nema í minningum okkar. Ok var einn af þeim rúmlega 300 jöklum landsins sem við skráðum á jöklakort um aldamótin síðustu. Þegar jöklarnir voru kortlagðir að nýju árið 2017 töldust 56 þeirra ekki lengur til jökla. Þetta er bein afleiðing hlýnunar jarðar vegna loftslagsbreytinga, sem því miður sér ekki fyrir endann á sem stendur“, segir Oddur. Hér fyrir neðan má lesa grein Odds Sigurðssonar um Ok.
Til minningar um Okjökul
Það er kunnara en frá þurfi að segja að jöklar á Íslandi, sem og hvarvetna á Jörðinni, hafa farið mjög rýrnandi undanfarna öld. Þó nokkrir jöklar hér á landi hafa horfið með öllu en þeir eru flestir smáir og lítt þekktir jafnvel þótt sumum þeirra hafi verið gefið nafn. Jöklar landsins voru kortlagðir um aldamótin síðustu og reyndust þeir vera rúmlega 300 talsins. Þeim hefur öllum verið gefið nafn (sjá Jöklakort af Íslandi 2017). Þegar jöklarnir voru kortlagðir að nýju árið 2017 þá voru 56 þeirra sem fundust um aldamótin ekki lengur á lífi.
Haustið 2014 var lýst yfir fráfalli Okjökuls í Hálsasveit í Borgarfirði. Hann var ekki sá fyrsti sem er afskráður sem jökull en sá nafnkunnasti enda blasti hann við byggðum Borgarfjarðar og fólki sem ferðaðist um hringveginn á löngum kafla. Einnig var auðvelt að finna hann á Íslandskortum sem voru víða til á heimilum. Sveinn Pálsson læknir nefndi jökulinn með nafni fyrstur manna og teiknaði af honum minnisstæða mynd. Fjallið Ok er nefnt í Harðar sögu og Hólmverja en í þá daga gæti það hafa verið jökullaust.
Okjökull var afar fögur smíð, reglulegur kúpull í norðurhlíðum Oksins (mynd 1). Um aldamótin 1900 hefur flatarmál hans verið um 15 km2. Undir miðja 20. öld hafði flatarmálið rýrnað um helming og um aldamótin síðustu náði hann ekki 4 km2 (mynd 2).
Mynd 1. Okjökull 2. nóvember 1990, horft til suðausturs. Haustsnjór þekur allt fjallið en jökullinn sker sig vel úr í landslaginu. Í baksýn eru Kaldidalur og Þórisjökull. (Ljósmynd: Oddur Sigurðsson)
Mynd 2. Okjökul 15. september 2003, horft í suðvestur. Rendur um allan jökulinn sýna að ekki er neitt eftir af ákomusvæði jökulsins og hann því á hröðu undanhaldi. Rákir framan við jökuljaðarinn gefa til kynna hve langt jökullinn náði er hann var hvað stærstur. Að baki gígnum í fjallinu má meðal annars sjá Fanntófell. (Ljósmynd: Oddur Sigurðsson)
Leifar af Okjökli 21. ágúst 2014. Hann er ekki lengur kúptur heldur aðeins slitróttur ísfláki.
(Ljósmynd: Oddur Sigurðsson)
Síðast þegar útlínur jökulsins voru dregnar (2012) reyndist flatarmálið vera 0,7 km2 en þá hefur hann að líkindum verið stirðnaður og kallast það á máli fræðimanna dauðís gagnstætt því sem er um lifandi jökul sem er nógu þykkur til þess að hníga undan eigin fargi. Vel má vera að á Okinu finnist enn leifar af jökulís í dældum en hann greinist auðveldlega frá snjó vegna stórra ískristalla.
Útlínur Okjökuls á mismunandi tímum (~1890, 2000 og 2012) dregnar á gervihnattarmynd frá 2012.
Fyrir utan að vera fögur og fróðlega náttúrufyrirbrigði eru jöklar afar sögufróðir. Þeir myndast á löngum tíma, lag fyrir lag af snjó sem ummyndast í ís með tímanum og farginu. Inni á milli eru ryklög sem afmarka hvert ár og gosaska sem markar tímamót í eldfjallasögunni. Þykkt árlaganna segir til um úrkomumagn hvers ár um sig og samsætur súrefnis og vetnis gefa til kynna sveiflur í hitafari. Nú hefur sagan sem Okjökull hafði að geyma runnið til sjávar og verður aldrei endurheimt. Mikilsvert er að okkur takist að skrá þá sögu sem aðrir jöklar landsins búa yfir og er ekki seinna vænna en að taka til við það verk áður en þeir renna í eilífðarhafið.
Leifar Okjökuls bíða þess að bráðna alveg 4. september 2014. (Ljósmynd: Oddur Sigurðsson)
Hverfandi jöklar skipta ekki sköpum um mannlíf á Íslandi í bráð þó að þeir geti haft veruleg áhrif á byggðir og athafnir manna eins og Íslandssagan ber órækt vitni um. Þeir eru hins vegar ótvírætt merki um aftakabreytingar í náttúrufari sem geta haft djúpstæðar afleiðingar fyrir alla lifandi náttúru Jarðar og þar með mannkynið.
Sunnudaginn 18. ágúst er ráðgert að fara með minningarskjöld upp á Ok og koma honum fyrir í sæti jökulsins sem var. Umhverfið þar er snöggt um tilkomuminna en þegar Skúli áði þar forðum og girti fastar söðul á Sörla.
Oddur Sigurðsson, jarðfræðingur