4.8 C
Reykjavik
Fimmtudagur - 26. janúar 2023
Auglýsing

Fjórðungur ungra kvenna undir miklum þrýstingi að senda myndir af sér á netinu

Auglýsingspot_img

Nýjar fréttir

Auglýsingspot_img

Ungar konur í sérstökum áhættuhóp

Ungar konur á aldrinum 15-17 ára eiga helst á hættu að verða þvingaðar til að senda myndir af sér og aðrar persónulegar upplýsingar, ásamt því að verða fyrir myndbirtingum á netinu gegn vilja þeirra. Þetta kemur fram í nýrri skýrslu fjölmiðlanefndar um haturstal og neikvæða upplifun af netinu sem byggir á niðurstöðum úr víðtækri spurningakönnun sem lögð var fyrir í febrúar og mars 2021. Konur áttu þá einnig í meiri erfiðleikum með að bregðast við þvingunum til myndasendinga og myndbirtingu gegn þeirra vilja en karlar. Skýrsluna í heild má nálgast hér.

 Fimmtungur ungra kvenna hefur lent í myndbirtingum án samþykkis

Konur á aldrinum 15-17 ára voru sá hópur sem var langlíklegastur til þess að hafa upplifað að vera þvingaður til að senda myndir af sér eða aðrar persónulegar upplýsingar, þar sem 23,9% sögðust hafa lent í þeim aðstæðum á síðustu 12 mánuðum. Til samanburðar höfðu 6,3% karla á aldrinum 15-17 ára upplifað þessar aðstæður og 0,6% 18 ára og eldri.

Þá höfðu 17,9% kvenna á aldrinum 15-17 ára lent í því að myndir eða myndskeið af þeim hafi verið birt á netinu í óþökk þeirra. Í hópi 15-17 ára karla var hlutfallið sömuleiðis hátt þar sem 13,8% höfðu lent í þeim aðstæðum, en meðaltalið í öðrum aldurshópum (18 ára og eldri) var 2%. „Þessar niðurstöður draga upp grafalvarlega mynd af því umhverfi sem ungt fólk og þá sérstaklega ungar konur búa við á netinu í dag.

Meginmarkmið könnunarinnar er að búa til ramma fyrir stefnumótun á sviði miðlalæsis svo að hægt sé að bregðast við með aðgerðum til úrbóta. Hér sjáum við svart á hvítu óviðunandi ástand og hóp sem þarfnast aðstoðar sem allra fyrst,“ segir Skúli Bragi Geirdal verkefnastjóri miðlalæsis hjá fjölmiðlanefnd.

Konur í meiri erfiðleikum með að bregðast við þvingunum til myndasendinga og myndbirtingu gegn þeirra vilja

Helmingur þátttakenda mat það sem svo að það myndi reynast þeim frekar eða mjög erfitt að höndla aðstæður ef til þess kæmi að myndir eða myndskeið af þeim yrðu birt opinberlega gegn þeirra vilja. Konur (60,9%) töldu sig líklegri en karla (43,5%) til að eiga í erfiðleikum með að bregðast við í slíkum aðstæðum. Tæpur þriðjungur þátttakenda taldi sig þá eiga frekar eða mjög erfitt með að bregðast við aðstæðum ef upp kæmi sú staða að einhver reyndi að beita þvingunum til að fá sendar myndir af þeim eða aðrar persónulegar upplýsingar um þá. Konur (33,3%) voru þar einnig líklegri en karlar (26,5%) til þess að segjast eiga frekar eða mjög erfitt með að höndla slíkar aðstæður.

Þriðjungur hefur lent í netsvindli

Þriðjungur þátttakenda lenti í því að einhver reyndi að hafa af þeim fé með netsvindli, 17% að einhver hafði reynt að komast yfir lykilorðin þeirra og 3,1% hafði upplifað auðkennisþjófnað. Í yngsta (15-17 ára) og elsta (60 ára og eldri) aldurshópnum voru fæstir sem sögðust hafa upplifað netsvindl, þar sem 16,8% í yngsta og 22% í elsta tilgreindu það en til samanburðar var meðaltalið 35% á aldursbilinu 18-59 ára. Í elsta aldurshópnum voru hlutfallslega fæstir sem sögðust hafa lent í lykilorðastuldi, eða 6,1%, en til samanburðar var meðaltalið 19% á aldursbilinu 15-59 ára,

þar sem hlutfallslega flestir voru í yngsta aldurshópnum (20,3%). Í yngsta aldurshópnum höfðu 10,2% þátttakenda upplifað auðkennisþjófnað en til samanburðar var hlutfallið 2,7% á aldrinum 18 ára og eldri. „Það eru margar leiðir til þess að bregðast við neikvæðri upplifun af netinu eins og t.d. með því að breyta persónuverndarstillingum, tilkynna þegar að brot eiga sér stað, vara aðra við og blokka þá sem reyna að svindla, svíkja og svívirða okkur. Þá megum við líka vera dugleg við að spyrja spurninga og leita aðstoðar hjá fólkinu í kringum okkur þegar að við lendum í vanda. Það versta sem við gerum er að gera ekkert því þannig leyfum við vandanum að breiðast út,“ segir Skúli Bragi.