Sýningin Sjávarútvegur 2019 / Iceland Fishing Expo 2019
,,Undanfarin ár hefur íslenskur sjávarútvegur verið í stöðugri uppsveiflu. Það má með sanni tala um tæknibyltingu í útgerð og vinnslu fiskafurða sem hefur fleytt íslenskum sjávarútvegi í fremstu röð.
Íslensk frystihús eru orðin hátæknivædd og fiskiskipaflotinn er útbúinn með nýjasta og fullkomnasta tæknibúnaði til fiskiveiða.
Fjöldi sprotafyrirtækja hafa verið sett á laggirnar en umrædd fyrirtæki hafa náð langt í frumkvöðlastarfi hvað varðar nýjar aðferðir til að vinna afurðir úr fiski, svo sem í snyrtivörum, lyfjum og vítamínum auk ýmissa hönnunarvara úr fiskroði. Þökk sé þessari frumkvöðlavinnu og skapandi hugsun, þá má með sanni segja að framtíðin í íslenskum sjávarútvegi sé björt.“ Segir Ólafur M. Jóhannesson framkvæmdstjóri Sjávarútvegssýningarinnar Iceland Fishing Expo 2019.
Iceland Fishing Expo 2019
Í ljósi þessa mikla uppgangs í iðnaðinum er skipulagning á annarri sýningu „Sjávarútvegs/Iceland Fishing Expo 2019“ hafin. Umrædd sýning var haldin í fyrsta sinn 2016 og hlaut hún einróma lof bæði gesta og sýnenda. Tilgangur sýningarinnar var að finna flöt fyrir bæði fagaðila og áhugafólk til að kynnast þróun og nýjungum í sjávarútvegi undanfarinna ára.
Gætt var sérstaklega að því að halda verði til sýnenda í algjöru lágmarki til að sem flestir hefðu tækifæri til að taka þátt auk þess sem sýnendum gafst tækifæri til að nálgast boðsmiða á sýninguna fyrir viðskiptavini sína þeim að kostnaðarlausu. Við trúum að þetta hafi átt stóran þátt í velgengi sýningarinnar. Sýnendum gafst með þessum hætti tækifæri á að bjóða þeim gestum sem þeir vildu sjá á sýningunni. Við hlökkum til að sjá ykkur í Laugardalnum 2019!