Auka fræðslufundur Alzheimersamtakanna verður haldinn í desember og mun Jón Snædal öldrunarlæknir fræða okkur um stöðuna á lyfjamálum fyrir fólk með Alzheimer sjúkdóminn. Við höldum fundinn í húsnæði Alzheimersamtakanna, Lífsgæðasetri St.Jó á 3.hæð, Suðurgötu 41 í Hafnarfirði. Við verðum einnig með beint streymi á heimasíðu okkar www.alzheimer.is og upptökur aðgengilegar eftir fundinn. Aðgangur ókeypis og öll velkomin!
Hér má lesa síðasta pistil Jóns sem fjallar um efnið:
„Á hverju hausti koma saman á ráðstefnu rannsakendur sem starfa við að þróa lyf við Alzheimer sjúkdómi. Ráðstefnan sem nefnist CTAD (Clinical Trials in Alzheimer´s Disease) hefur notið vaxandi vinsælda og er nú orðið uppselt á hana löngu áður en hún hefst en áhugasamir geta keypt aðgang í gegnum netið. Sú sem nú var haldin í Boston í Bandaríkjunum dagana 23.-27. október sl. var hin sextánda í röðinni.
Lyfjaþróun á þessu sviði hefur verið afar erfið og fyrir um áratug hættu stórir aðilar við rannsóknir en aðrir þráuðust við. Þetta hefur skilað árangri og allra síðustu árin er uppskeran loks að komast í hús. Á því ári sem liðið er frá síðustu ráðstefnu hefur óvanalega margt gerst. Fyrsta lyfið hefur fengið markaðsleyfi í Bandaríkjunum og sótt hefur verið um skráningu þess í Evrópu.
Niðurstöðu Evrópsku lyfjanefndarinnar er að vænta á fyrri hluta næsta árs sem er nokkurra mánaða seinkun frá því sem áður var boðað því óskað var eftir fyllri upplýsingum. Búið er að sækja um skráningu fyrir annað lyf í Bandaríkjunum og lyfið sem fékk bráðabrigðaskráningu í fyrra er enn aðgengilegt þar en þó ekki niðurgreitt Allt eru þetta líftæknilyf sem gefa þarf í æð. Mikið var fjallað um þessi lyf á ráðstefnunni. Frekari upplýsingar hafa komið fram um þau og orðið er ljósara hverjum þau gagnast helst. Sjúkdómsferlið má ekki vera komið mikið á skrið því þá er lítið gagn af lyfinu.
Þá er ekki aðeins litið á einkenni heldur einnig á líkamleg merki um sjúkdóminn því einstaklingar geta verið með svipuð einkenni en þó komnir mislangt í sjúkdómsferlinu. Því er mikil áhersla lögð á nákvæma skoðun áður en meðferð hefst, m.a. með mælingum á ýmsum próteinum. Öryggi lyfjagjafar skiptir miklu máli. Aukaverkanir eru fremur algengar en oftast saklausar en alvarlegri aukaverkanir geta þó komið fram. Það er nokkuð ljóst hverjir eru í aukinni hættu á alvarlegum aukaverkunum svo sem heilablæðingu og ekki er mælt með að þeir einstaklingar fái lyfin.
Á næstu árum mun skýrast hvernig meðferð með nýju lyfjunum gagnast til lengri tíma.
Nú er talað um nýtt upphaf og miklu meiri kraftur er nú í þróun lyfja við Alzheimer sjúkdómi en sem verka á annan hátt en lyfin sem senn verða aðgengileg. Einnig er verið að þróa lyf sem verka á sama ferli (amyloid ferlið) en eru miklu einfaldari og með minni aukaverkanir. Eitt slíkt lyf er komið langt í þróun og er rannsókn á því m.a. með þátttöku íslenskra sjúklinga. Þeirri rannsókn lýkur þegar á næsta sumri og niðurstöður verða kynntar á næstu CTAD ráðstefnu haustið 2024.
Aðrar framfarir eru á sviði mælinga á efnum í blóði sem hægt er að nota til að greina sjúkdóminn. Þær aðferðir nýtast einnig til að velja þátttakendur í lyfjarannsóknir og fylgjast með hvernig þeim farnast. Vonast er til að þessar aðferðir verði aðgengilegar fljótlega.
Ekki var mikið rætt um meðferðarmöguleika þeirra sem eru þegar komin með heilabilun og teljast vera lengra gengin í sjúkdómnum en svo að nýju lyfin komi til greina. Öllum er þó ljóst að þessum stóra sjúklingahópi verður að sinna og að það er virkileg þörf á betri meðferð fyrir hann.
Á ráðstefnum eins og þessum er stofnað til kynna við aðra rannsakendur og sambönd sem þegar hefur verið komið á eru treyst. Svo virðist sem rannsóknarsetrið á Landakoti, sem er hluti af minnismóttökunni sé að styrkja sig í sessi og líklegt að rannsakendur þar verði beðnir um að taka þátt í fleiri rannsóknum á næstu árum“.