Hugleiðingar veðurfræðings
Nú í morgunsárið nálgast kuldaskil landið úr vestri. Þessi skil eru afskaplega skörp og um miðjan morgun kemur mun kaldara loft til okkar, fyrst á V-verðu landinu. Þetta kalda loft þvingar sér yfir landið til austurs og mun því hlýna alls staðar áður en kólnar aftur. Skilin ýta rigningu á undan sér en á eftir þeim kemur snjór.
Upp úr hádegi snýst í hægari suðvestanátt og fer þá að élja allvíða. Eins og fyrr byrjar það V-ast. Lengst af verður þurrt NA-lands, en þar má einnig búast við éljagangi í kvöld.
Á morgun heldur útsynningurinn áfram með éljum og köldu veðri, en annað kvöld dregur enn á ný til tíðinda þar sem hvessir, hlýnar og fer að rigna.
Það má því segja að það séu umhleypingar nú um helgina og líkur á að ísing og hálka myndist allvíða líkt og Vegagerðin hefur nú þegar vakið athygli á.
Á mánudag er útlit fyrir að lægi og rofi til og að dálítil ró færist yfir veðrakerfin. Vetrarlegt og tíðindalítið veður mun líklega ráða ríkjum framan af næstu viku, eða breytilegar áttir, él á víð og dreif og kalt í veðri.
Veðurhorfur á höfuðborgarsvæðinu
Suðvestan 5-10 m/s síðdegis, él og hiti um frostmark, en 10-15 í fyrramálið. Hægari og úrkomulítið eftir hádegi á morgun, en gengur í suðaustan 15-20 undir kvöld með slyddu eða rigningu og hlýnar. Spá gerð: 19.01.2019 11:02. Gildir til: 21.01.2019 00:00.
Veðurhorfur á landinu
Suðvestan 5-13 m/s á vestanverðu landinu síðdegis með éljum og kólnandi veðri. Sunnan strekkingur austanlands með rigningu, slyddu eða snjókomu, en rofar þar til í nótt.
Suðvestan 10-15 á morgun með éljum, en léttskýjað austantil. Frost 0 til 5 stig.
Gengur í hvassa suðaustanátt sunnan- og vestanlands undir kvöld á morgun með snjókomu eða slyddu, en síðar rigningu á láglendi. Hlýnar aftur í veðri.
Spá gerð: 19.01.2019 11:16. Gildir til: 21.01.2019 00:00.
Veðurhorfur á landinu næstu daga
Á mánudag:
Suðlæg eða breytileg átt 8-15 m/s og él, einkum sunnanlands. Sunnan 15-20 austast á landinu framan af degi og rigning. Kólnandi veður, frost 0 til 5 stig um kvöldið.
Á þriðjudag og miðvikudag:
Hæg breytileg átt. Bjart með köflum, en él á stöku stað. Frost 0 til 10 stig.
Á fimmtudag:
Gengur í suðaustan 10-15 með snjókomu eða slyddu, en rigningu með suðurströndinni. Heldur hægari vindur norðanlands og þurrt framan af degi, en fer að snjóa þar síðdegis. Minnkandi frost á landinu og hlánar syðst.
Á föstudag:
Norðaustanátt með snjókomu norðan og austanlands. Hægari vindur sunnantil og él. Hiti um eða rétt undir frostmarki.
Spá gerð: 19.01.2019 09:19. Gildir til: 26.01.2019 12:00.