,,Fyrir það að dirfast að vinna í kosningum um forystu í verkalýðsfélagi því sem ég hef árum saman tilheyrt og fyrir að dirfast að vilja berjast fyrir hagsmunum verka og láglaunafólks hef ég verið ötuð aur af ógeðslegu fólki. Ég hef verið kölluð peð, strengjabrúða, stalínisti, trumpisti. Ég hef þurft að þola að því sé haldið fram að ég „ásælist“ sjóði Eflingar til að nota í annarlegum tilgangi.“ Segir Sólveig Anna Jónsdóttir
,,Björn Bjarnason, fyrrum dómsmálaráðherra, hefur ásamt því að þjófkenna mig og segja að ég sé ekki í tengslum við raunveruleikann, einnig sagt að ég sé „gerð út“ af karlmönnum. Og svo mætti lengi upp telja. Pæliði í því hvað þetta er ótrúlega klikkað; einn af stærstu „glæpum“ sem ómenntuð láglaunakona getur framið er að vilja hafa áhrif á það hvernig gæðunum er skipt og hvað vinnuaflið fær í sinn hlut af gróðanum sem vinna þeirra býr sannarlega til.
Fyrir hann skal refsa af sveit kilkkaðra talsmanna hins endalausa og óhefta arðráns. En á sama tíma og það eru landráð að vilja að fólk hafi kannski nóg fyrir húsnæði og nauðsynjum kemst fámennur hópur forréttindafólks upp með að greiða sér og félögum sínum upphæðir sem verkafólk getur ekki látið sig dreyma um, þrátt fyrir ævi fulla að linnulausri vinnu.
Á sama tíma og láglaunafólk er ásakað um að vilja drepa Ísland fær einhver ríkur karl, forstjóri Landsvirkjunnar bifreiðarhlunnindi að upphæð 2.636.016 krónum á einu ári (samtals eru launin hans og hlunnindi 3.426.962 krónur á mánuði)! Hátt í þrjár milljónir fyrir að EIGA bíl á meðan að hótelþernan og leikskólakonan fá svona umþb. 340.000 í laun á mánuði og leikskólakonan getur fengið 6.000 á mánuði frá borginni ef hún lofar að nota EKKI bíl þrisvar í viku.
Þið verðið að fyrirgefa en ég spyr í fullri alvöru: Hvað er eiginlega að á þessu landi?
Við búum saman 348.450 manneskjur og ætlar einhver sem vill einfaldlega ekki verða að aðhlátursefni að halda því fram að það sé eðlilegt að sum fái næstum þrjár milljónir á ári til að geta ekið um göturnar sem skattpeningar vinnuaflsins borga fyrir í einhverjum yfirgengilegum lúxus á meðan láglaunakonan á endalaust að sætta sig að láta kasta í sig einhverjum þúsundköllum, á endalaust að sætta sig við að halda kjafti og halda áfram að vinna og hætta að vera svona voðalega gráðug?
Að sumt fólk fái milljónir í bíla-pening á meðan sum eiga ekki nóg fyrir nauðsynjum út mánuðinn? Er þetta ekki siðlaust og óþolandi?
Á meðan það er svigrúm fyrir milljónir handa ökutækjum hinna ríku er ekki svigrúm fyrir mannsæmandi tilveru vinnuaflsins. Á meðan sumt fólk kemst upp með það að graðka til sín lúxus-svigrúm fyrir bílana sína á annað fólk að sætta sig við ekkert nema smotterí og svo auðvitað hatur og færdæmingar talsmanna óréttlætisins. Mér finnst það ógeðslegt.
Hvernig samfélag viljum við; samfélag það sem réttindi hinna ríku eru svo geigvænleg að meira segja bílarnir þeirra eru meira virði en láglaunafólk eða samfélag þar sem allt fólk býr við við efnahagslegt öryggi?
Viljum við búa í samfélagi þar sem láglaunakonan heldur áfram að sætta sig við kúgun og arðrán svo að stöðugleiki hins ríka og bílsins hans sé áfram það sem við verndum eða viljum við samfélag þar sem láglaunakonan rís upp og tekur sér það pláss og vald sem hún sannarlega á skilið?
Ég ætla bara að segja að; Ég vona að við sigrum. Ég vil að við sigrum. Af því að ég get ekki lengur sætt mig við að búa í landi þar sem bíll hins ríka er merkilegri en líf láglaunakonunnar. Ég trúi á hópefli vinnuaflsins, sameinuð getum við sent þeim sem vilja halda áfram að ráðskast með tilveru okkar skilaboð sem ekki er hægt að misskilja.
Í samfélagi þar sem hin ríku ráða öllu uppskerum við bíla-milljónir fyrir þá sem fá aldrei nóg og fingurinn handa þeim sem vinna vinnuna. En þegar vinnuaflið sigrar í þeirri baráttu sem það háir hverju sinni uppskerum við öll betra samfélag. Þessvegna vona ég að við sigrum.“Segir Sólveig Anna Jónsdóttir