46 mál voru bókuð hjá lögreglunni á Höfuðborgarsvæðinu á hálfum sólarhring eða til klukkan fimm í morgun. Sjö manns voru vistaðir í fangageymslum, þar af eru tveir grunaðir um akstur undir áhrifum áfengis/fíkniefna, Tveir vegna heimilisofbeldis og einn vegna líkamsárásar.
Um klukkan hálf tvö í nótt var tilkynnt um líkamsárás inn á skemmtistað í miðbænum. Árásaraðilinn var farinn er lögreglan kom á staðinn og var árásarþola ekið á slysadeild. Ekki var um alvarleg meiðsli að ræða.
Ók á 165 km. hraða innanbæjar
17 ára ökumaður var stöðvaður fyrir of hraðan akstur á Miklubraut rétt fyrir klukkan ellefu í gærkvöld. Var hann mældur á 165 km hraða. Haft var samband við forráðamann og tilkynning send til barnaverndarnefndar.
Tilkynnt var um lausan eld rétt fyrir miðnætti, að Veltusundi 1. Töluverðar skemmdir urðu á húsnæðinu vegna elds, sóts og vatns. Ekki er enn vitað um eldsupptök en tæknideild lögreglunnar hefur rannsókn síðar í dag. Þrítugur karlmaður var handtekinn á vettvangi og er vistaður í fangageymslu í þágu rannsóknar málsins.