Auðlindin okkar – Þjónusta við sjávarútveginn kostaði sex milljarða
Guðbrandur Einarsson – Viðreisn, skrifar um kvótakerfið, veiðigjöld ofl.
Af þeim 60 bráðabirgðatillögum sem starfshópar „Auðlindarinnar okkar“ hafa lagt fram er að finna 3 tillögur sem fjalla um auðlindagjöld. Tillaga 45 fjallar um hækkun veiðigjalda og einföldun útreikninga þeirra, tillaga 46 fjallar um fyrningarleið og tillaga 47 um auðlindasjóð og lögbundna dreifingu til sveitarfélaga.
Starfshópurinn nefnir m.a. að útreikningar veiðigjalda séu ógagnsæir og flóknir og að þeir byggi á upplýsingum úr rekstri fortíðar. Þá segir að erfitt sé að ákvarða rétt verð í útreikningum og að heimildir um meðferð séu ógagnsæjar. Óvissa sé einnig hjá fyrirtækjum um upphæð auðlindagjalds á hverjum tíma og að ólíkar virðiskeðjur flæki útreikninga.
Ekki er hægt að álykta öðruvísi en svo að þessi starfshópur tali mjög varlega hvað varðar aukna samfélagslega hlutdeild í þeim arði sem íslenskur sjávarútvegur skilar af sér. Þar er m.a. nefnt að skoða þurfi upptöku fyrningarleiðar vandlega.
Þær upplýsingar sem ég hef um stöðu sjávarútvegsins á árinu 2021 sýna að 65 milljarða hagnaður hafi verið á greininni það árið. Þetta sama ár voru greiddir út 18,5 milljarðar í arð, 7,7 milljarðar í auðlindagjöld og þjónusta við sjávarútveginn kostaði tæpa 6 milljarða.
Þetta sýnir svo ekki er um villst að auðlindagjald, sem ætti að teljast arður þjóðarinnar af eign sinni, er ekki í neinu samræmi þann arð sem rétthafar að nýtingu auðlindarinnar greiða sjálfum sér. Almenningur á erfitt með að skilja svona tölur en sé þetta sett í eitthvað samhengi þá er hagnaður sjávarútvegsfyrirtækja á svipuðu róli og allar launagreiðslur Landspítala.
Spurningin hlýtur alltaf að vera sú hvort þjóðin eigi að fá notið arðs af auðlindum sínum. Er eðlilegt að aðgangur fárra að sameiginlegum auðlindum skapi þeim ofsagróða sem geri þeim m.a. kleift að kaupa upp fjölda fyrirtækja í verslun og ferðaþjónustu? Er eðlilegt að auðlindagjald dugi nánast bara fyrir þjónustu við útgerðina og þjóðin haldi litlu eftir?
Viðreisn leggur til að farin verði fyrningarleið sem opnar aðgengi fleiri að sjávarútvegsauðlindinni og auka tekjur þjóðarinnar af sinni eigin auðlind.
Vonandi mun þessi starfshópur koma með viðunandi lausnir. Á meðan staðan er óbreytt er ekki hægt að kalla þetta Auðlindina okkar.