Bankasýslu ríkisins var ókunnugt um kaup Landsbankans á TM og formaður hennar krefst þess að aðalfundi Landsbankans verði frestað um fjórar vikur. Hann lýsir yfir vonbrigðum vegna viðskiptanna.
Bankasýsla ríkisins lýsir yfir vonbrigðum með ákvörðunartöku og upplýsingagjöf um kaup Landsbankans á tryggingarfélaginu TM frá Kviku banka og krefst Bankasýslan þess að aðalfundi Landsbankans verði frestað um fjórar vikur.
Þetta kemur fram í bréfum Jóns Gunnars Jónssonar, forstjóra Bankasýslunnar, til bankaráðs Landsbankans annars vegar og til fjármálaráðherra hins vegar, en bréfin birtust á vef Bankasýslunnar. Þar segir m.a. að Bankasýslunni hafi ekki verið gert viðvart um kaupin fyrr en skuldbindandi tilboði var tekið, kl. 17 í fyrradag.
„Það er mat BR að tilboð Landsbankans í 100% eignarhlut TM sé þess eðlis að Landsbankanum hafi borið að upplýsa BR um það með skýrum og formlegum hætti og með eðlilegum fyrirvara,“ segir í bréfi Bankasýslunnar, eða BR, til bankaráðs Landsbankans.