Alþjóðatollastofnunin, WCO, komst í síðasta mánuði að þeirri niðurstöðu að Ísland hefði tollflokkað pitsuost blandaðan með jurtaolíu ranglega. Málið varðar mikla hagsmuni innflutningsfyrirtækja en eitt þeirra, Danól, dótturfyrirtæki Ölgerðarinnar og félagsmaður í FA, fékk bakreikning upp á talsvert á þriðja hundrað milljóna króna vegna þess að Skatturinn hélt því fram að fyrirtækið hefði flutt inn pitsuost á röngu tollnúmeri. Samkvæmt niðurstöðu WCO var varan hins vegar rétt tollflokkuð. Málið var rætt á fundi stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar Alþingis í morgun.
Félag atvinnurekenda hefur bent á að í málinu virðist ríkisvaldið hafa gengið erinda hagsmunaaðila í landbúnaði án þess að rannsaka það til hlítar. Þegar Skattinum og fjármálaráðuneytinu mátti vera orðið ljóst að þau hefðu hlaupið á sig, var gögnum í málinu leynt. Annars vegar var tölvupósti frá starfsmanni Evrópusambandsins, sem var lykilgagn í málinu, stungið undir stól hjá Skattinum.
Hins vegar voru formleg bréf frá ESB og WCO varðandi rétta tollflokkun, sem bæði fjármálaráðuneytið og ríkislögmaður höfðu undir höndum, ekki lögð fram í réttarhaldi um málið fyrir Landsrétti. Fyrirtækið sem í hlut átti fékk ekkert þessara gagna í hendur, þrátt fyrir skýr ákvæði stjórnsýslulaga um slíkt.
Lestu meira um tollflokkunarmálið
Umræða