Rúta með fimmtán um borð valt ofan í Svartá við Saurbæ í Skagafirði um klukkan tvö í dag. Sex farþegar voru fluttir með sjúkrabílum til Akureyrar þar sem hlúð verður að þeim, en að sögn Höskuldar B. Erlingssonar aðalvarðstjóra Lögreglunnar á Norðurlandi vestra slasaðist enginn lífshættulega. Hinum níu sem voru í rútunni verður ekið til Akureyrar með björgunarsveitarbílum. Þetta kom fram á vef ríkisútvarpsins sem fyrst flutti frétt af málinu.
Hann segir í viðtalinu að aðkoman að slysinu hafi ekki verið góð, þar sem rútan lá á hliðinni ofan í ánni. Björgunarstörfum á vettvangi er lokið og búið að koma öllum farangri úr rútunni. Hlúð er að fólkinu í húsi Flugbjörgunarsveitarinnar í Varmahlíð þangað til það fær far til Akureyrar. Höskuldur segir að um fimmtíu manns hafi komið að aðgerðinni með einum eða öðrum hætti. Auk lögreglunnar tók slökkviliðið, björgunarsveitarfólk og starfsfólk Rauða krossins þátt í henni.