Nýlega hafði ég samband við Olgu Einarsdóttur sem er dóttir Einars á Einarsstöðum. Ég sagði henni að ég hefði búið til podcast/viðtalsþátt þar sem èg tæki viðtal við andlegt fólk af öllum toga. Og að ég væri spámiðill meðal annars sem starfaði hjá ,,Miðlun í 7 himni.“
Ég sagði henni að ég hefði spáð fyrir Grindavíkurgosinu meðal annars á Útvarp Sögu fyrir tveimur árum sirka.
Ég sagði henni að þátturinn héti ,,Andlegu málin með Gísla Hvanndal“ sem væri viðtalsþáttur um andleg málefni þar sem koma meðal annars miðlar og/eða sjáendur af öllum toga, heilarar, reikimeistarar, stjörnuspekingsr og fjölbreytt andlegt fólk til að ræða um allt milli himins og jarðar er snertir andlegar gjafir þeirra, líf þeirra, reynslu, upplifanir og viðhorf til lífsins og hins andlega veruleika.
Að þættirnir væru fjölbreyttir eins og fólkið sjálft og er ætlað að fræða fólk og deila meðal annars visku og þekkingu, auk þess að vera þættir til skemmtunar. Að það væri komin tími til að draga hið andlega samfélag betur saman og vera til staðar fyrir fólk sem er að hefja sína andlegu göngu í lífinu sem og allra annarra sem eru andlega vakandi og leitandi í lífinu.
Að það væri fullt af fólki sem vildi koma í þáttinn og það væri mikill heiður að fá dóttur frægasta miðils Íslands fyrr og síðar í þáttinn og ræða við hana um pabba hennar og hans og hennar líf.
Þættirnir hafa vakið mikla athygli og það munu koma út þrír þættir þessa helgina. Og nú frá fyrsta þætti á 10 dögum hafa yfir 9 þúsund manns heimsótt síðuna en það eru 10 þættir komnir á síðuna en verða orðnir 13 á sunnudaginn.
Ég og Olga spjölluðum saman og ég sagði að ég vildi sýna að pabbi hennar hefði ekki bara verið erindreki eða þjónn almættisins sem kraftaverkamaður. Heldur væri hann bóndi líka, faðir, fjölskyldumaður og èg vildi sýna þeirra fallega samband sem dóttir og faðir.
Viðtalið við Olgu var einlægt og skemmtilegt og hún er yndisleg manneskja að öllu leyti. Hún býr á Einarsstöðum og á þrjár stelpur með manninum sínum og er með 100 kindur og 15 hesta. Hún semsagt fór í fótspor pabba síns og hefur einnig andlitssvip hans.
En í viðtalinu þegar Olga var að tala um að pabbi sinn hefði sem ungur drengur haldið á ljósaperu og leikið sér að slökkva og kveikja á henni með viljamættinum einum þá varð skjárinn á tölvunni minni svartur og Olga brosti bara og síðan kviknaði á honum á aftur. Og ekkert svart kom á upptökunni sjálfri þegar ég skoðaði hana. Olga brosti og vissi að þetta var pabbi sinn því hann var prakkari og glaður maður. Hann var að láta vita af sér. Stuttu seinna varð ég var við hann í íbúðinni minni. Olga sagði að þetta væri bara vanagangur á Einarsstöðum, væri oft að gerast með rafmagnstæki og annað. En það er ekki allt.
Í lok samtalsins þá enduðum við Olga samtalið og ég slökkti á upptökunni eins og ég hafði gert í öllum þáttunum fyrir þennan þátt.
Þegar ég horfði síðan á þáttinn þá sá ég að viðtalið stoppaði ekki og samræður mínar við Olgu eftir þáttinn hefðu verið teknar upp með óútskýranlegum hætti. Einar er að láta vita af sér að hann sé ennþá til staðar og að hjálpa sagði Olga, að hann væri bara ekki farinn af jörðinni og væri að stríða okkur.
En nú komum við að svolitlu dásamlegu.
Faðir minn lenti í vinnuslysi fyrir 5 árum og datt 6 metra fram af húsþaki. Hann var heppinn að lifa af en fætur og hendur meðal annars brotnuðu og hann búinn að vera verkjaður í öll þessi ár. Ég sagði við Einar eftir þáttinn ,,Einar, getur þú hjálpað pabba mínum?“
Stuttu seinna hafði ég samband við pabba og spurði hvernig honum liði. Og hann sagði ,,Ég fékk svona hita,sælu og frið um allan líkamann og dottaði smá og ég er alveg verkjalaus. ,,Mèr líður svona rosalega vel Gísli.“ Ótrúlegt… sagði hann.
Þá sagði ég honum hvað ég hefði gert og hann þakkaði mér og Einari fyrir. En málið er að pabbi er ennþá verkjalaus í dag. Þessir slæmu verkir eru farnir. Hann hefur komið í heilun til mín í fortíðinni (en ég er nýbyrjaður í andlegri vinnu aftur eftir svolítinn tíma) og gengið út verkjalaus og sofið alla nóttina. En þarna tók Einar mig og beiðni mína á allt annað stig. Nútíma kraftaverkastig 2024.
Olga segir frá kraftaverki sem hún var sjálf vitni að sem snertir móðir hennar. Ég hvet ykkur að horfa á þáttinn og Olgu og þættina sem eru þegar komnir og þá sem eru á leiðinni um helgina til að fræðast um andleg mál.
Þegar ég var unglingur var miðlað til mín bæn frá ljósveru í fallegri vídd sem ég tileinka Einari á Einarsstöðum sem læknaði fólk, var bóndi, fjölskyldumaður og yndislegur pabbi.
Bænin tileinkuð Einari Jónssyni er svona:
Í faðmi drottins vil ég vera,
kærleika og frið með mèr bera,
til þeirra sem þörfin er mest,
ég sendi þeim himnanna gest. – Í Jesú nafni, Amen.
Einar eignaði sér aldrei kraftaverkin sem hann gerði. Heldur sagði hann að þau væru frá almættinu komin og hann væri bara millistykki. Einar er frægasti miðill Íslands fyrr og síðar.
En ég segi samt við þig Einar; Takk, takk fyrir pabba minn. Þú ert ennþá hér fyrir þá sem þurfa hjálp.
Höfundur er spámiðill og læknamiðill