Framundan er erfið aðlögun að breyttum aðstæðum
Út úr fréttum líðandi stundar má stundum lesa hvert stefnir. Fyrir nokkrum áratugum kom út bók í Bandaríkjunum, sem nefnist Megatrend og spáði fyrir um framtíðina með þeim hætti að höfundur rýndi í gífurlegt magn frétta í blöðum, sem þá voru gefin út víðs vegar um Bandaríkin. Sumt stóðst og annað ekki eins og gengur.
Ef fréttir Morgunblaðsins þessa dagana eru lesnar frá þessu sjónarhorni má þar finna vísbendingar um að uppgangi síðustu ára sé að ljúka.
Ferðamönnum er að fækka, hótelbókunum fækkar, minni viðskipti eru á veitingastöðum, efasemdir um að hægt sé að reka hótel sums staðar á landsbyggðinni allt árið um kring. Icelandair vill selja hótel sín og einbeita sér að kjarnastarfsemi, Eimskip var rekið með tapi á fyrsta ársfjórðungi, greinendur fjármálafyrirtækja eru ósáttir við óljósar skýringar á því tapi að þeirra mati, veruleg minnkun er á innflutningi bíla og reyndar framundan að óbreyttu stórhækkun á verði þeirra, sem þýðir enn minni sölu, fermetraverð íbúða í Vesturbænum fer lækkandi að sögn RÚV o.sv.frv.
Á sama tíma er að finna í Morgunblaðinu í dag fréttir um áform um mikla fjölgun veitingastaða í miðborginni, sem bersýnilega eiga sér rætur, þegar allt lék í lyndi.
En jafnframt að leiguverð á húsnæði fyrir veitingastarfsemi sé orðið svo hátt að starfsemin beri ekki þá leigu.
Heildarmyndin af þessum fréttum er sú, að hápunkti uppgangsáranna sé náð og framundan sé erfið aðlögun að breyttum aðstæðum.
Og að þeir muni lifa af sem átta sig nógu snemma á því sem er að gerast en aðrir eigi erfiða tíma í vændum.
Morgunblaðið: Grafalvarlegar fréttir úr ferðaþjónustu
Á forsíðu Morgunblaðsins er að finna grafalvarlega frétt úr ferðaþjónustu. Þar og í framhaldsfrétt inni í blaðinu er talað við fólk úr ýmsum greinum þessa nýja atvinnuvegar og fer ekki á milli mála að toppinnum er náð að sinni, hvað sem síðar verður.
Þetta mun hafa þrenns konar áhrif:
Í fyrsta lagi dregur úr vinnuaflsþörf í ferðaþjónustu. Það þýðir að fólk leitar annað. Í sumum tilvikum verður fátt um störf. Það er líklegt að muni eiga við um eldra fólk, sem hefur, ef marka má fréttir, leitað töluvert inn í ferðaþjónustu eftir að starfsævi er lokið á öðrum vettvangi.
Í öðru lagi kann fækkun að valda vandræðum vegna gífurlegra fjárfestinga á síðari árum, ekki sízt í hótelum en líka í bifreiðum af ýmsu tagi. Hvaða áhrif munu slík vandamál hafa á fjármálakerfi landsins?
Leynast einhvers staðar fleiri „United Silicon“?
Í þriðja lagi mun fækkun ferðamanna og þau vandamál, sem af því leiða flækja enn þá flóknu stöðu, sem við blasir á vinnumarkaði.
Atvinnulífið mun einfaldlega segja: við getum ekki meir.
Launþegar mun benda á skjólstæðinga Kjararáðs og segja: en hvað með þá?
Ríkisstjórn og Alþingi geta ekki setið auðum höndum og vonast til að þetta bjargist.
Segir Styrmir Gunnarsson, f.v. Ritstjóri Morgunblaðsins.