,,Þetta kallast Excel fiskifræði“
Kristján Þór Júlíusson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, hefur undirritað reglugerð þar sem heimild til flutnings aflamarks í botnfisktegundum yfir á næsta fiskveiðiár er aukin úr 15% í 25%.
Strandveiðimenn setja stórt spurningarmerki við þessa geðþóttaákvörðun ráðherrans og heimildamaður Fréttatímans úr þeirra röðum spyr: ,,Er þetta skv. vísindaráðgjöf Hafró? Virðast líta á fiskistofna eins og bankabók, þar sem höfuðstóll er stofn og svo er árlegur vöxtur (vextir) og svo vex höfuðstóllinn ár frá ári. Verst að þannig er það ekki í náttúrunni. Þetta kallast Excel fiskifræði “
Hvaða líffræði er á bak við þessa speki?
Annar heimildarmaður segir ,,Hvaða líffræði er á bak við þessa speki að hægt sé að flytja veiðiálag að stórum hluta á milli ára. Auðvitað gengur þetta ekki upp vistfræðilega en mögulega í reiknisfiskifræðinni sem stangast á við raunveruleikann. Ef ráðherra hefur trú á þessum æfingum – hvers vegna íhugaði þá ráðherra ekki að fara eins að með grásleppuna?“
Ástæðan er í tilkynningu Kristjáns Þórs, sögð vera samdráttur í eftirspurn eftir ferskfiski í heiminum í kjölfar Covid en einnig hafi dregið úr eftirspurn fyrir frosnum afurðum á síðustu vikum (frosinn fiskur hefur tveggja ára geymsluþol). Við þær aðstæður var talið rétt að veita tækifæri til frekari sveigjanleika við veiðar og vinnslu með því að hækka heimild til flutnings úr 15% í 25%. Á sama tíma fengu grásleppu- útgerðir engin tækifæri til frekari sveigjanleika við veiðar og vinnslu og fjöldi þeirra fékk ekki einu sinni að veiða í ár, þegar veiðar voru stoppaðar af sama ráðherra, fyrirvaralaust með hrikalegum afleiðingum fyrir fjölda fjöskyldna víða um land.
https://gamli.frettatiminn.is/segist-ekki-eiga-tortolafelag-med-sama-nafni-og-ehf-felag-krafist-milljarda-fyrir-makrilkvota/