Aðalfundur BSRB lýsir yfir stuðningi við konur sem stigið hafa fram í nýrri bylgju #metoo frásagna með sögur af ofbeldi og áreitni, en einnig þær konur sem ekki hafa stigið fram opinberlega með sínar sögur.
„Við trúum ykkur og stöndum með ykkur,“ segir meðal annars í yfirlýsingu aðalfundar bandalagsins um #metoo. Ályktunin var samþykkt einróma á fundinum sem lauk um hádegi í dag.
Ályktun aðalfundarins er svohljóðandi:
Aðalfundur BSRB lýsir yfir stuðningi við þær konur sem stigið hafa fram undanfarið til að segja sögur sínar af áreitni og ofbeldi og einnig þær sem ekki hafa stigið fram opinberlega í nýrri bylgju #metoo frásagna. Við trúum ykkur og stöndum með ykkur.
Konur sem hafa upplifað ofbeldi, áreitni, niðurlægingu og smánun eru ekki lítill hópur heldur konur úr öllum kimum samfélagsins. Fatlaðar konur, innflytjendur og transfólk búa við hvað mesta hættu á að verða fyrir ofbeldi.
Önnur bylgja #metoo getur ýft upp gömul sár og því hvetur aðalfundur BSRB atvinnurekendur til að veita þolendum svigrúm til að leita sér aðstoðar til að vinna úr reynslu sinni. Við minnum einnig á að hægt er að leita til stéttarfélaga til að fá stuðning vegna ofbeldis, kynferðislegrar eða kynbundinnar áreitni á vinnustöðum.
Fulltrúar á aðalfundi BSRB kalla eftir því að stjórnvöld, aðilar vinnumarkaðarins og samfélagið allt ráðist í aðgerðir til að tryggja öllum réttlæti og líf án ofbeldis. Öxlum öll ábyrgð á að breyta menningunni innan veggja heimilisins, í vinahópnum, skemmtanalífi, vinnunni, búningsklefanum, félagsstarfi og alls staðar. Við berum öll ábyrgðina á því að halda umræðunni vakandi, að sýna virðingu og samkennd í samskiptum hvert við annað og auka vitund og skilning á kynjakerfinu sem við búum við. Jafnréttismál eru málefni okkar allra – ekki bara kvenna.