Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu leitar ökumanns rauðrar fólksbifreiðar sem ók á 7 ára dreng á reiðhjóli í Árskógum í Reykjavík skömmu fyrir kl. 16 í gær, þannig að líkamstjón hlaust af, en ökumaðurinn ók rakleiðis af vettvangi.
Drengurinn hjólaði á göngustíg, sem liggur meðfram Skógarseli og aftan við bensínstöð N1 að Árskógum þar sem slysið varð.
Við atvik eins og þetta er mikilvægt að ökumenn gangi úr skugga um að engin meiðsl hafi hlotist af né að skemmdir hafi orðið. Sömuleiðis er áríðandi að tilkynna málið til lögreglu, ekki síst vegna þess að áverkar eru ekki alltaf sjáanlegir á vettvangi.
Lögreglan biður ökumann rauðu fólksbifreiðarinnar um að gefa sig fram en hafi aðrir orðið vitni að slysinu eru hinir sömu beðnir um að hafa samband í síma 444 1000. Einnig má senda upplýsingar um málið í tölvupósti á netfangið sigrun.jonasdottir@lrh.is eða í einkaskilaboðum á fésbókarsíðu Lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu.
Af fréttum næturinnar var þetta helst að frétta hjá lögreglunni á Höfuðborgarsvæðinu:
Tilkynnt um slagsmál á Laugavegi. Fjórir á móti einum. Er lögregla kom á staðinn voru átökin yfirstaðin og engar kröfur frá neinum. Lögregla hafði þó frekari afskipti af einum sem reyndist hafa tvo ólöglega hnífa á sér. Hnífarnir voru haldlagðir. Þá er vopnaburður á almannafæri einnig bannaður.
Þá var einnig tilkynnt um tvo menn og konu, á þrítugsaldri, vera að spreyja á húsgafl á Laugavegi. Lögreglumenn höfðu afskipti af fólkinu en öll neituðu þau sök í málinu þrátt fyrir að athæfi þeirra náðist á upptöku eftirlitsmyndavéla. Spreybrúsarnir voru haldlagðir.
Í vestur –og austurbæ voru fimm ökumenn voru stöðvaðir í gærkvöldi og nótt grunaðir um akstur undir áhrifum áfengis / fíkniefna. Allir látnir lausir að lokinni sýnatöku.
Um eittleitið í nótt stöðvaði lögreglan ökumann í Hafnarfirði grunaðan um akstur undir áhrifum áfengis og akstur án ökuréttinda. Ökumaður látinn laus að lokinni sýnatöku. Og á sama tíma stöðvaði lögreglan ökumann í Breiðholti grunaðan um akstur undir áhrifum fíkniefna og akstur sviptur ökuréttindum.
Ökumaður látinn laus að lokinni sýnatöku. Lögreglan stöðvaði svo ökumann í Kópavogi klst. síðar, grunaðan um akstur undir áhrifum fíkniefna og akstur sviptur ökuréttindum. Ökumaður framvísaði einnig neysluskammti af fíkniefnum. Á lögreglustöð sýndi fíkniefnapróf jákvæða svörun við 5 tegundir fíkniefna. Ökumaður látinn laus að lokinni sýnatöku. Þrír aðrir ökumenn voru handteknir til viðbótar vegna ölvunar- og fíknefnaaksturs í nótt.