Þórunn Sveinbjörnsdóttir, formaður Landssambands eldri borgara, segir að um fjögur þúsund eldri borgarar hafi ekki efni á heyrnartækjum þar sem styrkur til heyrnartækjakaupa hafi ekki fylgt verðlagi. Yfir fimm ár eru síðan styrkurinn var síðast hækkaður, úr 30 þúsund krónum í 50 þúsund, en síðan þá hafa heyrnartæki hækkað í verði. Jafnvel miðtekjufólk hafi ekki lengur efni á bestu tækjunum. Þórunn segir stöðuna alvarlega því langvarandi heyrnarskerðingu fylgi félagsleg einangrun sem aftur eykur líkurnar á sjúkdómum á borð við Alzheimer. Þetta kom fram í viðtali við Þórunni á Rás eitt í morgun.
„Þeir sem eiga lítil eftirlaun, þeir eiga engan séns þarna. Og við erum nokkuð klár á því, við höfum verið í sambandi við Heyrnarhjálp, að um fjögur þúsund manns hafi ekki efni á heyrnartækjum,“ sagði Þórunn á Morgunvakt Rásar 1 í morgun. „Ef við værum stödd í sumum af norrænu löndunum að þá væri þetta talið vera mikið brot á mannréttindum að fá ekki að vera með í samfélaginu. Þetta finnst mér vera bara skammarlegt.“