Fjöldi fullorðinna á heimili virðist hafa lykiláhrif á fjárhag þess og börn hafa fyrst og fremst áhrif á fjárhaginn ef aðeins einn fullorðinn býr á heimilinu.
Þetta er á meðal þess sem fram kemur í niðurstöðum sérheftis félagsvísa Hagstofu Íslands um fjárhag heimila þar sem fjallað er um lágtekjuhlutfall, byrði húsnæðiskostnaðar og skort á efnislegum gæðum út frá heimilisgerð og stöðu á húsnæðismarkaði.
Heimili einstæðra foreldra og einmenninga eru því líklegust til að búa við fjárhagsþrengingar. Auk þess virðist staða á húsnæðismarkaði hafa áhrif en fjárhagsstaða þeirra sem búa í leiguhúsnæði er almennt verri en þeirra sem búa í eigin húsnæði.
Hlutfall einstæðra foreldra undir lágtekjumörkum hækkað
Hlutfall undir lágtekjumörkum hefur ekki breyst mikið í heild sinni á tímabilinu 2016 til 2019 en þegar litið er á einstakar heimilisgerðir sést að lágtekjuhlutfallið hefur hækkað hjá einstæðum foreldrum en lækkað eða ekki breyst hjá öðrum heimilisgerðum. Árið 2019 voru 37,5% einstæðra foreldra undir lágtekjumörkum samanborið við 13,7% heimila þar sem einn barnlaus fullorðinn bjó, 8,4% heimila tveggja fullorðinna með börn og 6,5% heimila tveggja eða fleiri barnlausra fullorðinna.
Íþyngjandi húsnæðiskostnaður er algengastur á meðal einstæðra foreldra, eða 36,3%, og þarnæst hjá einmenningsheimilum eða 23,4%. Af heimilum tveggja fullorðinna með börn eru 10,6% með íþyngjandi húsnæðiskostnað og 6,4% heimila tveggja eða fleiri barnlausra fullorðinna.
Á tímabilinu 2016 til 2019 dró nokkuð úr skorti á efnislegum gæðum á meðal heimila einstæðra foreldra og á meðal einmenningsheimila en árið 2019 var tíðni skorts á efnislegum gæðum 9,5% á heimilum einstæðra foreldra og 8,6% á einmenningsheimilum. Þá var tíðni skorts á efnislegum gæðum 3,1% á heimilum tveggja fullorðinna með börn og 3,2% á heimilum tveggja eða fleiri barnlausra fullorðinna og hafði hlutfallið lítið breyst frá árinu 2016.
Auknar líkur á fjárhagsþrengingum ef búið er í leiguhúsnæði
Heimili í leiguhúsnæði eru mun líklegri til þess að vera undir lágtekjumörkum heldur en heimili í eignarhúsnæði. Þá er íþyngjandi húsnæðiskostnaður mun algengari á meðal leigjenda en á meðal eigenda húsnæðis sem og skortur á efnislegum gæðum. Heimili einstæðra foreldra eru líklegust til þess að vera í leiguhúsnæði og einmenningsheimili næstlíklegust.
Þessar niðurstöður byggja á lífskjararannsókn Hagstofunnar sem er hluti af samræmdri lífskjararannsókn Evrópska efnahagssvæðisins (EU-SILC).