Undirbúningur fyrir Guns N’ Roses í fullum gangi
Það verður mikill hasar í Laugardalnum næstu vikuna þar sem undirbúningur fyrir risatónleika Guns N’ Roses er farinn á fullt. Nú þegar hefur starfsfólk hafist handa við að leggja tímabundið gólf yfir völlinn sjálfan, sem kemur til með að vernda grasið á meðan tónleikunum stendur. Gólfið er frá fyrirtækinu ArmorDeck og þykir með því allra fullkomnasta sem gerist í verndun á grasi fyrir stórviðburði.
Um 160 manns koma að undirbúningnum sem tekur um eina viku. Frágangurinn ætti að ganga öllu hraðar en hann ætti að taka um einn til tvo daga. Um er að ræða 56 gáma af varningi auk 100 vörubíla sem voru fullhlaðnir af græjum. Umfang verkefnisins er umtalsvert stærra en áður hefur sést á Íslandi en um er að ræða langstærstu tónleika sem farið hafa fram hér á landi.
Friðrik Olafsson, skipuleggjandi, er á staðnum. „Búnaður fyrir sviðið sjálft er ná að mjakast inn á Laugardalsvöllinn. Fullbyggt verður sviðið 65 metra breitt og 22 metrar þar sem það rís hæst. Þrír risaskjáir koma til með að sýna áhorfendum hvert einasta smáatriði sem fram fer, sá stærri, sem er fyrir miðju sviðsins, er 18 metrar að breidd og 9 metrar að hæð, en á vængjum sviðsins er að finna skjái sem eru heldur ekkert slor, eða 12 metrar að breidd og 9 metrar að hæð.“
Friðrik leggur líka sérstaka áherslu á hljóðkerfið, sem verður það stærsta í tónlistarsögu Íslands „Hljóðkerfið fyrir tónleikana er af gerðinni JBL Pro frá bandaríska fyrirtækinu Harman en einnig njóta tónleikarnir aðstoðar frá HljóðX. Þetta er öflugasta hljóðkerfi sem sett hefur verið upp á Íslandi með rúmlega 100 hátölurum og fjórum „delay“-turnum sem tryggja jafnt og þétt hljóð um allan Laugardalsvöll. Síðan má ekki gleyma öllum eldvörpunum og reyksprengjunum, ásamt ógleymanlegri ljósasýningu. Þetta verður bara geggjað,“ segir Friðrik.
Tónleikarnir fara fram þriðjudagskvöldið 24. júlí og opna hliðin kl. 16.30. Vegna mikils fólksfjölda hefur verið ákveðið að bæta við inngöngum við suðurhlið leikvangsins til að allt gangi eins og best verður á kosið. Tyler Bryant & the Shakedowns hefja upphitun um kl. 18 áður en íslenska stórsveitin Brain Police ærir aðdáendur. Guns N’ Roses, í öllu sínu veldi, stíga á svið um kl. 20 og má búast við mikilli keyrslu í rúmar þrjár klukkustundir. Lög eins og Sweet Child of Mine, November Rain, Welcome to the Jungle, Paradise City og Knockin’ On Heavens Door eiga eftir að óma í Laugardalnum á þessum ógleymanlega og einstaka viðburði í íslenskri tónlistarsögu.
Í stuttu máli, það má enginn missa af þessari veislu!
Myndirnar voru teknar í Laugardalnum í dag en einnig má sjá tölvugerða teikningu eftir Tómas Pétursson þar sem sjá má stærðarhlutföllin eins og þau munu blasa við tónleikagestum á þriðjudag.