Í gær barst svar frá Akureyrarbæ við bréfi sem félagið afhenti sveitarstjórum eða staðgenglum þeirra á félagssvæðinu fyrr í júlí.
Í svarinu frá bænum segir að meirihluti bæjarráðs hafni erindi Einingar-Iðju. Þar sem samningsumboð sveitarfélagsins vegna kjarasamninga er hjá Sambandi íslenskra sveitarfélaga og að sveitarfélagið muni ekki tjá sig opinberlega um málið eða taka afstöðu til þess.
Björn Snæbjörnsson, formaður félagsins, segir að niðurstaða bæjarráðs séu mikil vonbrigði. „Það er greinilegt að Samband íslenskra sveitarfélaga er búið að múlbinda Akureyrarbæ þegar tekið er fram að sveitarfélagið ætli ekki að tjá sig opinberlega um málið eða taka afstöðu til þess á sama tíma og verið er að mismuna starfsmönnum þess eftir því í hvaða stéttarfélagi þeir eru.
Ég veit að félagsmenn eru ekki sáttir við þessa niðurstöðu og efast ekki um að þeir eigi eftir að heyra í kjörnum fulltrúum eða launadeild bæjarins til að fá botn í þennan gjörning. Ég vil þó þakka Sóleyju fyrir að hlýða ekki SÍS í einu og öllu. Hún hefur munað eftir kosningaloforðum um hvað starfsfólk sveitarfélagsins sé dýrmætt,“ sagði Björn að lokum.
https://gamli.frettatiminn.is/2019/07/18/dapurlegar-hotanir-og-mismunun-af-halfu-sambands-islenskra-sveitarfelaga/