Í gær voru rannsökuð sýni frá 6 einstaklingum og greindist enginn með E. coli sýkingu. Alls hefur E. coli sýking því verið staðfest hjá 21 einstaklingi, þar af eru 19 börn og tveir fullorðnir. Ekkert barn er nú inniliggjandi á Barnaspítala Hringsins af völdum STEC E. coli og enn er beðið eftir staðfestingu á greiningu hjá barninu í Bandaríkjunum sem grunað er um alvarlega E. coli sýkingu.
Niðurstöður frá þeim tveimur fullorðnu einstaklingum sem greindust með bakteríuna þ. 17. júlí sýndu að báðir voru þeir með sömu tegund og greinst hefur í börnunum og kálfum í Efstadal. Annar einstaklinganna starfar í Efstadal og hefur verið einkennalaus. Viðkomandi hefur ekki starfað við matvælaframleiðslu eða afgreiðslu matvæla og hefur því ekki sérstaka tengingu við hina sýktu.
Niðurstaðan sýnir hins vegar að E. coli bakterían er útbreiddari á staðnum en áður hefur verið sýnt fram á og ekki eingöngu bundin við kálfana.
Hinn einstaklingurinn er erlendur ferðamaður sem kom til landsins 5. júlí sl. Hann heimsótti Efstadal 8. júlí og veiktist 11. júlí. Í Efstadal neytti hann matvæla, þar á meðal íss en var ekki í samneyti við dýr.
Það er því ljóst að ekki hefur tekist að uppræta smit og smitleiðir í Efstadal með þeim aðgerðum sem gripið var til um og eftir 4. júlí sl. Í ljósi þessara upplýsinga hefur Heilbrigðiseftirlit Suðurlands í samráði við Matvælastofnun gert kröfur um úrbætur á eftirfarandi þáttum starfseminnar:
- Sala íss verði stöðvuð þar til alþrif og sótthreinsun hefur verið gerð. Framleiðsla íss á staðnum var stöðvuð þ. 5. júlí sl. og verður ekki hafin fyrr en að uppfylltum ákveðnum skilyrðum.
- Alþrif og sótthreinsun fari fram á veitingastað og aðlægum rýmum (var lokið 19.7).
- Aðgengi að dýrum verði áfram lokað þar til viðunandi hreinlætisaðstaða/handþvottaraðstaða hefur verið sett upp.
- Aðskilnaður milli veitingasvæða og dýra verði efldur.
- Starfsmenn sem vinni við matvæli þurfi að sýna fram á þeir séu ekki með bakteríuna STEC E.coli.
Matvælastofnun
Heilbrigðiseftirlit Suðurlands
Sýklafræðideild LSH
MATÍS
Heilbrigðisstofnun Suðurlands