Matvælastofnun barst tilkynning frá Arnarlaxi (Fjarðalaxi) föstudaginn 16. ágúst um gat á nótarpoka einnar sjókvíar Arnarlax við Laugardal í Tálknafirði
Gatið uppgötvaðist við skoðun kafara og er viðgerð lokið. Samkvæmt upplýsingum Arnarlax var gatið um 7cm x 12cm og á 2m dýpi og voru um 179.000 laxar í kvínni með meðalþyngd 280g. Við köfunareftirlit sem átti sér stað fyrr í þessum mánuði, eða 6. ágúst sl., var nótarpoki heill.
Atvikið er til meðferðar hjá Matvælastofnun og munu eftirlitsmenn stofnunarinnar skoða aðstæður hjá fyrirtækinu og fara yfir viðbrögð þess. Arnarlax lagði út net í samráði við Fiskistofu til að kanna hvort slysaslepping hafi átt sér stað. Netanna var vitjað bæði á laugardag og sunnudag og enginn lax veiddist og hefur veiðiaðgerðum verið hætt.