-0.2 C
Reykjavik
Þriðjudagur - 31. janúar 2023
Auglýsing

Fjölmiðlar á Íslandi: Haturstal, neteinelti ofl.

Auglýsing

Auglýsing

Nýjar fréttir

Auglýsing

Haturstal ógn við lýðræðislega umræðu

Mun meira er um haturstal, neteinelti, ögranir og háðung í athugasemdakerfum á Íslandi en í  Noregi. Þetta kemur fram í nýrri skýrslu fjölmiðlanefndar um haturstal og neikvæða upplifun af netinu sem byggir á niðurstöðum úr víðtækri spurningakönnun sem lögð var fyrir í febrúar og mars 2021.

Helmingur þátttakenda sagðist hafa orðið varkárari í að lýsa skoðunum sínum í umræðum á netinu í kjölfar háðs eða ögrunar, 32,8% sögðust frekar taka þátt í umræðum í lokuðum hópum og  20,6% hættu að taka þátt í umræðum á netinu. „Þar sem netið er mikilvægur samskiptavettvangur í lýðræðislegri umræðu má telja alvarlegt ef hluti fólks telur sig verða fyrir áreiti, neteinelti eða haturstali og veigrar sér jafnvel við því að taka þátt í opinberri umræðu. Slík þróun getur haft alvarlegar afleiðingar fyrir þróun lýðræðis,“ segir Elfa Ýr framkvæmdastjóri fjölmiðlanefndar.

Skýrsluna í heild sinni má nálgast hér
Meira um hatursfull ummæli á netinu á Íslandi en í Noregi

Um fjórðungur (24,1%) þátttakenda sagðist hafa tekið eftir/upplifað af eigin raun hatursfull ummæli á netinu á síðustu 12 mánuðum. Það er umtalsvert hærra hlutfall en mældist í sambærilegri rannsókn í Noregi sem unnin var af norsku fjölmiðlanefndinni Medietilsynet. „Það vekur athygli að samkvæmt niðurstöðum norsku könnunarinnar hefur áreiti og neteinelti aukist í Noregi frá því að síðasta könnun var gerð þar í landi fyrir tveimur árum síðan. Þá sögðust aðeins 2% hafa orðið fyrir haturstali á netinu en nú eru það hlutfall komið upp í 7%,“ segir Elfa Ýr Gylfadóttir framkvæmdastjóri fjölmiðlanefndar.

Mikilvægt að kanna nánar muninn milli Íslands og Noregs varðandi haturstal, neteinelti, háðung í athugasemdakerfum og hótanir um ofbeldi

Einnig var spurt um neteinelti, háðung í athugasemdakerfum og hótanir um ofbeldi á netinu á sambærilegan hátt í þessari rannsókn og þeirri norsku. Í öllum atriðum var svarhlutfallið töluvert hærra á Íslandi en í Noregi. Aðeins 3% þátttakenda höfðu upplifað einelti eða áreiti á netinu í Noregi en 12,3% á Íslandi. Hlutfallslega helmingi fleiri höfðu upplifað háðung eða ögrun í umræðum/athugasemdum á Íslandi (11,5%) en í Noregi (5%). Þá sögðust 10% þátttakenda á Íslandi hafa upplifað hótanir um ofbeldi á síðustu 12 mánuðum en aðeins 2% í Noregi. „Mikilvægt er að kanna nánar af hverju þessi mikli munur stafar og af hverju Íslendingar telja sig verða mun frekar fyrir hatursfullum ummælum á netinu en Norðmenn,“ segir Elfa Ýr.

Hærra hlutfall á Íslandi en í Noregi telur sig í erfiðleikum með að bregaðst við neikvæðum aðstæðum á netinu

Nokkur munur er á Íslandi og Noregi þegar að niðurstöður varðandi viðbrögð við hatursfullum ummmælum, einelti og hótunum á netinu eru bornar saman. Helmingur (48,5%) þátttakenda á Íslandi á í frekar eða mjög miklum erfiðleikum með að bregðast við hótunum um ofbeldi á netinu, en 38% í Noregi. Á Íslandi töldu 44,5% þátttakenda sig eiga mjög eða frekar erfitt með að bregðast við einelti eða áreiti á netinu en í Noregi var hlutfallið 33%. Þá var einnig hlutfallslegur munur milli landanna þegar að spurt var um viðbrögð við hatursfullum ummælum þar sem 35,9% töldu sig eiga frekar eða mjög erfitt á Íslandi en 30% í Noregi. „Það er mikilvægt fyrir okkur að geta borið þessar tölur saman við Noreg til að átta okkur á þeirri stöðu sem við stöndum frammi fyrir. Í Noregi eru til samanburðartölur frá fyrri árum en ekki hérna á Íslandi þar sem rannsóknir sem þessar hafa ekki verið gerðar áður. Til þess að átta okkur á þróun mála hér á landi og árangri af þeim aðgerðum sem við ráðumst í til að efla miðlalæsi þurfum við að framkvæma rannsóknir sem þessar með reglulegu millibili,“ segir Skúli Bragi Geirdal verkefnastjóri miðlalæsis hjá fjölmiðlanefnd.

Aðeins fjórðungur varð ekki fyrir áhrifum af ögrun eða háðung í umræðum á netinu

„Þá vekur það athygli að rúmlega helmingur þeirra sem töldu sig hafa orðið fyrir ögrun eða háðung í umræðum á netinu sagðist vera orðinn varkárari gagnvart því að lýsa skoðunum sínum í umræðum á netinu. Þá sögðust tveir af hverjum tíu í sama hópi hafa hætt að taka þátt í umræðum á netinu. Til samanburðar eru 39% þeirra sem lent hafa í ögrun og háðung í Noregi orðnir varkárari á netinu og sama hlutfall er hætt að taka þátt í umræðum á netinu,“ segir Elfa Ýr. Þá voru 32,8% sem  sögðust frekar taka þátt í umræðum í lokuðum hópum á Íslandi, 15,5% sögðust frekar ræða við fólk sem væri sammála sér, 4,2% fóru að taka meiri þátt en áður og 2% nefndu aðrar afleiðingar. Aðeins fjórðungur þátttakenda varð ekki fyrir neinum áhrifum af ögrun eða háðung í athugasemdakerfum.

Ógn við lýðræðislega umræðu í landinu

Aldurshópurinn 15-17 ára var líklegri en aðrir aldurshópar til þess að segjast hafa upplifað hatursfull ummæli, einelti eða áreiti, háðung eða ögrun í umræðum/athugasemdakerfum og hótanir um ofbeldi á netinu. Elsti aldurshópurinn (60 ára og eldri) var hins vegar ólíklegastur til að hafa upplifað öll þau atriði sem hér eru talin upp. „Það er sláandi munur milli aldurshópa þegar að kemur að haturstali og neikvæðri upplifun af netinu í þessum niðurstöðum. Við sjáum þá einnig að neikvæð uppplifun af þessum þáttum hefur áhrif á þátttöku fólks í umræðum á netinu. Hættan er þá að ákveðnir aldurshópar missi sínar raddir og komi þar með ekki sínum málum og sjónarmiðum að. Ef við grípum ekki í taumana og tæklum þennan vanda þá er líklegt að þetta sé þróun sem muni hafa áhrif á lýðræði í landinu,“ segir Skúli Bragi Geirdal.