Sverrir Einar Eiríksson, annar eiganda skemmtistaðarins B í Bankastræti, segist hafa sent formlega kvörtun til lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu vegna þess að hann var handtekinn, aðfaranótt laugardags á skemmtistað sínum.
Yfirlýsingin í heild sinni:
Á aðfararnótt 17. september sl. kom upp ágreiningur um vinnubrögð lögreglu við eftirlit á veitingastað okkar í Bankastræti. Okkur aðstandendum staðarins fannst vanta að gætt væri hófs í vinnu lögreglu, en áður hafði þurft að leiðrétta misskilning lögreglumanns sem eftirlitið leiddi um kröfur þær sem gerðar eru til dyravarða á staðnum. Sami lögreglumaður lét færa undirritaðan niður á lögreglustöð þar sem málinu lauk og mér var sleppt.
Lögreglan heldur því fram að of margir hafi verið inni á staðnum, en talning með aðstoð öryggismyndavélakerfis staðarins sýnir að svo var ekki.
Ég hef sent lögreglustjóranum á höfuðborgarsvæðinu formlega kvörtun vegna framgöngu þessa lögreglumanns. Okkur er í mun að gott samstarf sé við lögreglu og hörmum að þarna hafi orðið misbrestur á því. Við vinnum að því að koma á samtali við lögregluna á höfuðborgarsvæðinu um vinnulag við eftirlit sem fullnægi þörfum lögreglu án þess að það sé um of íþyngjandi fyrir gesti og rekstur staðarins.
Sverrir Einar Eiríksson