Í september lögðu háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra og heilbrigðisráðherra fram sameiginlegt minnisblað til upplýsinga fyrir ríkisstjórn varðandi forgangsaðgerðir í þágu heilbrigðismenntunar.
Efling menntunar heilbrigðisstarfsfólks er lykilatriði þegar kemur að mönnun í heilbrigðiskerfinu. Skortur er á heilbrigðisstarfsfólki á heimsvísu og er Ísland þar engin undantekning. Innan heilbrigðisráðuneytisins er unnið að viðamikilli greiningu á mönnunar- og menntunarþörf heilbrigðisstarfsfólks til framtíðar og mun sú greining verða tilbúin á næstu vikum. Ljóst er að grípa þarf til margvíslegra aðgerða til að mæta aukinni þjónustuþörf, sem m.a. stafar af öldrun þjóðarinnar. Nýsköpun og breytt verklag geta verulega dregið úr mannaflaþörf og létt undir með starfsfólki en það breytir því ekki að nauðsynlegt er að efla menntun heilbrigðisstarfsfólks.
Þrír háskólar koma mest að menntun heilbrigðisstétta og eiga þeir oft í viðamiklu samstarfi við heilbrigðisstofnanir. Umfangið er mest innan Háskóla Íslands en Háskólinn á Akureyri og Háskólinn í Reykjavík gegna einnig mikilvægu hlutverki. Rúmlega sjö milljörðum króna er árlega varið í háskólamenntun á sviði heilbrigðisvísinda og skyldra greina.
Háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytið og heilbrigðisráðuneytið, í samvinnu við Háskóla Íslands og Landspítalann, hafa ákveðið að grípa til margvíslegra ráðstafna til að bregðast við þeim mönnunarvanda sem blasir við í heilbrigðiskerfinu.
Fjölga þarf nemendum í heilbrigðistengdum greinum og efla sérnám lækna
Meðal aðgerða sem mótaðar hafa verið til að efla heilbrigðismenntun er hvatning til háskólanna til að forgangsraða í þágu heilbrigðisvísinda og fjölga nemendum í námsgreinum á sviði heilbrigðisþjónustu. Jafnframt verða skólarnir hvattir til aukins samstarfs á þessu sviði. Þá verður óskað eftir hugmyndum um hvernig fjölga megi nemendum og hvað skólarnir telja sig þurfa til þess að af þeirri fjölgun geti orðið. Fjölgun lækna í sérnámi hér á landi er einnig til skoðunar sem og efling sérnáms almennt.
Öflugar færnibúðir
Háskólar og heilbrigðisstofnanir verða hvött til að leggja fram tillögur að uppbyggingu færnibúða og hermisetra sem nýtast til kennslu og þjálfunar klínískra vinnubragða en slíkt er forsenda þess að hægt sé að fjölga nemendum verulega samhliða því að menntunin sé efld. Færnibúðir nýtast ekki einungis nemendum á háskólastigi heldur einnig heilbrigðisstarfsfólki innan heilbrigðisstofnana og nemum á framhaldsskólastigi, svo sem í sjúkraliða- og félagsliðanámi um land allt. Færnibúðir hafa verið nýttar hér á landi með góðum árangri en með aukinni áherslu á þær og fjárfestingu í betri tækjabúnaði og þjálfun geta þær skipt sköpun í því að standa undir þjálfun heilbrigðisstarfsfólks til framtíðar.
Skólarnir verða hvattir til að sækja um stuðning til nýs Samstarfssjóðs háskólanna sem starfræktur er á vegum háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytisins. Stefnt er að því að heilbrigðisráðherra styrki verkefnin um sambærilega upphæð.
Fjölbreytt starfsumhverfi forsenda samkeppnishæfni
Auk framangreindra aðgerða verður leitað til Nýs Landspítala um tillögur til að hraða framkvæmdum við nýtt húsnæði fyrir Heilbrigðivísindasvið Háskóla Íslands. Einnig er vinna í gangi sem felst í því að endurskoða skilyrði og bæta ferli við veitingu starfsleyfa. Sérstaklega verður lögð áhersla á starfsleyfi fyrir heilbrigðismenntað starfsfólk frá löndum utan EES svæðisins.
Ísland er í samkeppni við önnur lönd þar sem skortur er á heilbrigðisstarfsfólki á heimsvísu. Starfsumhverfi heilbrigðismenntaðra verður að vera bæði fjölbreytt og spennandi til að Ísland geti staðist þessa samkeppni, og eru aðgerðir sem ráðist verður í á næstu misserum til að fjölga starfsfólki með heilbrigðismenntun liður í aukinni samkeppnishæfni landsins.