Allir eigi að vera rólegir, ,,það er verið að breyta lögunum“
Ragnar Þór Ingólfsson var í viðtali í þættinum Harmageddon og fór yfir Samherjamálið og fleira. Hann sagði m.a. ,,Þessi sjávarútvegsfyrirtæki gera allt sem þau geta til að borga sem minnst til samfélagsins. Hversu mikið kom af erlendum gjaldeyri í gegnum fjárfestingaleið Seðlabankans? Og hvaðan koma þeir peningar nema frá skattaskjólum, þar sem menn fá 20% afslátt af íslenskum krónum í verðlaun frá íslenska ríkinu og heilbrigðisvottorð. Hvaðan koma þessir milljarðar?“Stjórnmálin eru búin að samþykkja þetta en ekki þjóðin, segir Ragnar Þór.
Varðandi sjávarútvegsráðherra Íslands, sagði Ragnar Þór að það væri stórfurðulegt að einhver útgerðarkóngur væri að senda sjávarútvegsráðherra leiðbeiningar í tölvupósti, þar sem er rauðlitaður texti um það hvernig ætti að breyta leikreglum í fiskveiðistjórnunarkerfinu, ,,þetta skjal er bara til!“
,,Svo kemur sjávarútvegsráðherra fram í Kasljósþætti þar sem hann er spurður hvers vegna Samherji eigi 15% af öllum kvótanum á Íslandi þegar lögin heimila bara 12%? Þá svarar hann bara þannig að allir eigi að vera rólegir, ,,það sé verið að breyta lögunum“ – ,,Ég er algjörlega búinn að fá upp í kok út af þessari spillingu“ sagði Ragnar Þór. Hvað segir forsætisráðherrann okkar? Þar heyrist hvorki hósti né stuna! Tekið hafi verið á málinu í Namibíu en ekkert hafi verið gert á Íslandi.
Sjávarútvegsráðherrann Kristján Þór, var á sjó hjá Samherja fyrir nokkrum misserum og segist samt ekkert hafa komið nálægt fyrirtækinu í mörg ár. Hann segist jafnframt ekkert ætla að koma nálægt neinum málum er varða Samherja, en er svo mættur til að opna nýtt frystihús Samherja á Dalvík daginn eftir.“ Hver á að taka ákvörðun um leyfilegan heildarafla/kvóta? Hver á að úrskurða um almenn málefni í sjávarútvegi sem varða allar útgerðir í landinu og þ.m.t. Samherja?
Fjöldinn af byggðalögum hafa verið lögð í rúst, þar sem útgerðarmenn hafi lofað öllu fögru og svikið allt. Þeir hegði sér í raun eins og stjórnmálaflokkarnir sem standa ekki við neitt þegar þeir komast í ríkisstjórn og benti á fjölmörg dæmi um svik núverandi ríkisstjórnar, máli sínu til stuðnings. Ragnar Þór segir í lokin að réttast í stöðunni sé að innkalla allan kvóta þjóðarinnar og setja hann á markað og bendir á að hægt sé að borga miklu hærra verð fyrir afnot af auðlindinni okkar sem nýtist í Íslenska innviði.