Matvælastofnun hefur tekið sýni á öllum minkabúum landsins vegna kórónuveirunnar og reyndust þau öll neikvæð. Fyrirskipaðar hafa verið hertar sóttvarnir á minkabúum.
Tekin voru sýni á öllum níu minkabúum landsins og þau send í greiningu á Tilraunastöð Háskóla Íslands í meinafræði á Keldum og hjá Íslenskri erfðagreiningu. Niðurstöður liggja nú fyrir og voru þau öll neikvæð.
Sýnin voru tekin úr dauðum minkum sem lógað var vegna árvissrar pelsunar. Þegar pelsun lýkur á minkabúum hefur minkastofn landsins minnkað í um 15 þúsund lífdýr sem bíða fram á vorið eftir að pörun hefjist.
Matvælastofnun hefur gert áætlun um reglubundnar sýnatökur í vetur á öllum minkabúum. Auk þess verða starfsmenn minkabúa skimaðir samkvæmt fyrirmælum sóttvarnalæknis.
Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið hefur fyrirskipað hertar sóttvarnaraðgerðir á minkabúum, samkvæmt tillögu Matvælastofnunar. Markmið aðgerðanna er að verja minka fyrir smiti með kórónaveirunni sem veldur COVID-19. Í þeim felast m.a. hertar kröfur um persónulegar sóttvarnir starfsmanna, flutningur lifandi minka verður óheimill og ónauðsynlegar heimsóknir í minkahús bannaðar. Einnig verður sýningahald með minka bannað og því verða minkarnir í Fjölskyldu- og húsdýragarðinum í Reykjavík ekki til sýnis á opnunartíma garðsins.