Samhæfingarmiðstöðin í Skógarhlíð var virkjuð vegna tveggja rúta sem fóru út af veginum á Kjalarnesi um kvöldmatarleytið. Önnur rútan fór út af veginum norður af Grundahverfi, hin var nær Hvalfjarðagöngunum. Lögregla, slökkvilið og sjúkraflutningamenn voru send á vettvang og björgunarsveitir voru kallaðar út og voru farnir af stað vegna fyrri rútunnar þegar fregnir bárust um að önnur rúta hefði líka farið út af veginum.
Enginn er meiddur í fyrri rútunni sem lögregla og björgunarsveitir komust fyrr að en hátt í þrjátíu voru í henni og um tíu eru í hinni rútunni.
Búið er að loka veginum um Kjalarnes vegna veðurs. Einnig er búið að loka Hellisheiði og Þrengslum þar sem ekkert ferðaveður er á þessum slóðum. Búist er við því að veður skáni upp úr klukkan níu í kvöld. Gul viðvörun er í gildi á suðvestanverðu landinu og við Breiðafjörð.
Umræða