,,Sjúkraflutningar á Suðurlandi var efni ræðu minnar í dag: Ég ætla að gera að umtalsefni mínu í dag stöðu sjúkraflutninga almennt og sérstaklega á Suðurlandi.
Aðalstarfsstöð sjúkraflutninga Heilbrigðisstofnunar Suðurlands er á Selfossi. Starfsstöðvarnar eru fimm og sinna gríðarlega stóru landsvæði sem er um 30.000 km² og nær allt frá Hellisheiði í vestri að Höfn í Hornafirði í austri. Stofnunin hefur til umráða tíu sjúkrabíla sem staðsettir eru á Selfossi, í Rangárþingi, á Vík, á Klaustri og í Vestmannaeyjum.
Auk þess að sinna íbúum Suðurlands hefur ferðamannastraumur um Suðurlandið aukist mjög, auk þess sem stór sumarhúsabyggð er á landsvæðinu.
Á síðustu fimm árum hefur sjúkraflutningum á svæðinu fjölgað um 40%. Á árinu 2018 fóru sjúkraflutningamenn á Suðurlandi í tæplega 4.100 sjúkraflutninga, þar af 1.714 forgangsútköll.
Nú nýverið var ákveðið af sparnaðarástæðum að fara í breytingar á mönnun í sjúkraflutningum þar sem sólarhringsvakt breyttist í bakvaktir sjúkraflutningsmanna á nóttunni í Rangárþingi.
Það er einnig staðreynd að engin sjúkrabifreið í fyrstu útkallslínu Heilbrigðisstofnunar Suðurlands er ekin undir 200.000 km. Einhverjir bílar eru eknir á fjórða hundrað þúsund km svo ástandið er orðið vægast sagt alvarlegt.
Í þessu ljósi er alvarlegt að enn hefur útboð vegna fyrirhugaðra kaupa á sjúkrabifreiðum verið frestað. Frestur átti að vera til 7. febrúar en því var frestað til 13. mars. Nú hefur því verið frestað fram á haustið. Ég tel nauðsynlegt að við styðjum miklu betur við heilbrigðisstofnanir úti á landi.“ Sagði Karl Gauti Hjaltason, þingmaður Miðflokksins.