Salan á þriðjungshlut í HB Granda hf sýnir betur en flest annað að ríkið er að gefa fáeinum auðugum Íslendingum milljarða tugi króna sem þeir stinga í eigin vasa. Ríkið lætur hjá líða að innheimta eðlilegt afgjald fyrir nýtingu fiskimiðanna sem þýðir að langstærstur hluti fiskveiðiársins er árleg gjöf kvótavinafélagsins á Alþingi til hinna fáu útvalinna og þóknarlegra landsmanna
Framlegðin segir til um hvað eftir er af tekjum þegar öll útgjöld hafa verið reiknuð. Það er verðið sem unnt er að greiða fyrir að geta stundað starfsemina. Há framlegð þýðir að verðið verður hátt. Framlegðin 2017 hjá HB Granda af veiðum og vinnslu varð um 4,4 milljarðar króna miðað við verð á evru í dag. Greitt veiðigjald var hins vegar um 700 milljónir króna. Skiptingin milli ríkisins, eiganda auðlindarinnar, og fyrirtækisins var því þannig að ríkið tók aðeins til sín 16% af framlegðinni en skildi eftir 84% hjá eigendum hlutafélagsins. Kristinn H. Gunnarsson
Þetta er niðurstaðan fyrir árið 2017, árið sem talsmenn LÍÚ segja að skattheimta ríkisins, einkum með veiðigjaldinu, hafi verið svo yfirgengileg að það jafngilti skattheimtu á sterum. Tölurnar tala öðru máli. Þær sýna að veiðigjaldið var allt of lágt. Ríkið tók of lítið til sín af ávinningnum af því að nýta fiskimiðin og gaf gróðann til fárra. Fáir af þessum fáum, tveir-þrír hluthafa í HB Granda hf hafa þakkað fyrir þennan örlætisgerning um innleyst nærri 22 milljarða króna með sölu á hlut sínum.
Útgerðirnar innheimta 100%
Staðreyndin er sú að verðið á hlutabréfunum endurspeglar einfaldlega þann hagnað af útgerð sem ríkið skilur eftir með vanskattastefnu sinni. Þegar ríkið tekur lítinn hluta af hagnaðinum eða öllu heldur framlegðinni til sín verður mestur hluti hans eftir í fyrirtækjunum og þar taka eigendurnir gróðann út á einn eða anna hátt.
Tuttugu og tveir milljarðar króna er að mestu leyti orðið til á þennan hátt sem gjöf ríkisins. Ef ríkið hefði hagað sér eins og hluthafarnir í HB Granda og öðrum útgerðarfyrirtækjum hafa gert um áratugaskeið hefði ríkið selt veiðiréttindin á samkeppnismarkaði og látið útgerðina sjálfa verðleggja verðmætin í veiðiréttinum. Ríkið hefði svo afhent réttindin á þessu markaðsverði. Það hafa útgerðirnar einmitt gert. Þær hafa leigt frá sér eða selt veiðiréttinn á þessu markaðsverði. Og HBGrandi, Samherji og fleiri taka 100% af þessu markaðsverði sem leiguliðarnir og kvótakaupendurnir verða að greiða. Ekki 16% af markaðsverði eins og ríkið lætur sér duga heldur 100%.
Útgerðirnar greiða 3% – 16%
Það sem útgerðirnar greiða til ríkisins fyrir veiðiréttinn hefur alltaf verið aðeins brot af því sem þær láta aðra greiða sér fyrir sama rétt. Síðustu 7 fiskveiðiár hefur veiðigjaldið verið frá 3% upp í 16% af leiguverði samkvæmt því sem uppgefið er á vef Fiskistofu.
þetta er stærsta skýringin á því að Guðmundur vinalausi telur sig geta greitt svona hátt verð fyrir hlutabréfin í HB Granda. Hann gengur út frá því að um ókomna framtíð muni ríkið halda áfram að gefa á hverju ári milljarða tugi króna svo hann og fáeinir aðrir kvótagreifar geti innleyst reglulega gróðann.
Einkavinavæðing LÍÚ
Veiðigjaldið er ágætur mælikvarði á stöðuna. Lágt veiðigjald þýðir mikill einkavæddur gróði. LÍÚ hamast gegn hækkun veiðigjaldsins af þeirri einföldu ástæðu að þar á bæ vilja menn halda áfram að einkavinavæða hina óþrjótandi uppsprettu óheyrilegs gróða.
Tengt efni:
https://gamli.frettatiminn.is/2018/19/04/kaupir-eign-thjodarinnar-21-7-milljard-er-haegt-ad-vedsetja-thjodareign/