„Það er skoðun mín að hún sé of pólitísk fyrir þetta embætti og mér finnst þetta skrýtið að hún skuli vera að bjóða sig fram, að hún skuli ganga úr embætti forsætisráðherra og fara í þetta. Mér finnst það bara skrýtið. Ég er ekki að reyna að vera leiðinlegur, mér finnst þetta bara einlæglega,“ sagði Jón Gnarr.
Þetta kom fram í Pallborðinu á Vísi í gær þar sem Jón, Baldur og Halla Hrund Logadóttir forsetaframbjóðendur ræddu komandi kosningar.
Þess má geta að Katrínu var boðið að taka þátt í þættinum, en hún afþakkaði vegna fyrri skuldbindinga.
Baldur Þórhallsson forsetaframbjóðandi sagðist ekki vilja tjá sig um Katrínu Jakobsdóttur, sem einnig gefur kost á sér til embættisins, þegar hún væri ekki viðstödd. Jón Gnarr, sem er líka að bjóða sig fram, segir smá meðvirkni í því að tjá sig ekki um aðra frambjóðendur þegar þeir gætu alveg verið á staðnum.