Endurreikningur TR vegna tekjutengdra greiðslna í fyrra
Tryggingastofnun hefur lokið endurreikningi á tekjutengdum greiðslum ársins 2018 hjá stærstum hluta lífeyrisþega. Einstaklingar geta skoðað niðurstöður endurreiknings á Mínum síðum 22. maí nk.
Endurreiknað var fyrir 60 þúsund lífeyrisþega og námu heildargreiðslur ársins að endurreikningi loknum 118,7 milljarða króna. Um er að ræða 38 þúsund ellilífeyrisþega og 22 þúsund örorku- og endurhæfingarlífeyrisþega.
Niðurstaða endurreikningsins leiðir í ljós að 49% þeirra sem fengu tekjutengdar greiðslur á síðasta ári eiga inni greiðslur hjá TR. Flestir þeirra eru með inneignir undir 40 þúsund krónum. Þeim fækkar á milli ára sem fengu ofgreitt eða um 5%, þeir eru 39% af hópnum og flestir skulda undir 50.000 krónum. Eðlilegt er að frávik á greiðslum komi fram við endurreikning þar sem erfitt getur reynst fyrir lífeyrisþega að áætla tekjur fram í tímann. Tiltölulega litlar breytingar á tekjum geta orsakað frávik frá greiðslum við endurreikning.
Til að tryggja að lífeyrisþegar fái réttar greiðslur, sem eru í samræmi við raunverulegar tekjur þeirra á árinu 2018, miðast endurreikningurinn við tekjuupplýsingar í staðfestum skattframtölum. Endurreikningurinn er borinn saman við það sem viðkomandi fékk greitt frá TR árið 2018 miðað við uppgefnar tekjur í tekjuáætlun. Þessi samanburður leiðir í ljós hvort lífeyrisþegi fékk réttar greiðslur, vangreitt eða ofgreitt.
Uppgjör vegna endurreiknings
Þeir sem eiga inneign vegna ársins 2018 fá hana greidda með eingreiðslu þann 1. júní næstkomandi. Þeir sem fengu ofgreitt byrja að greiða til baka skuld vegna ársins 2018 þann 1. september næstkomandi. Miðað er við að skuldin verði greidd á 12 mánuðum en ef það reynist lífeyrisþegum íþyngjandi er hægt að semja um lengri tíma.
Niðurstöður á Mínum síðum
Hægt er að skoða niðurstöður endurreikningsins á Mínum síðum á tr.is frá og með 22. maí. Næstu daga fá þeir bréf í pósti sem þurfa að greiða til baka vegna ofgreiðslu nema þeir séu virkir notendur á Mínum síðum. Jafnframt fá dánarbú send bréf í pósti.
Lífeyrisþegar eru hvattir til að skoða niðurstöðu sína á Mínum síðum. Algengum spurningum varðandi endurreikninginn er svarað á tr.is undir liðnum spurt og svarað.