Stjórn Niceair hefur óskað eftir að félagið verði tekið til gjaldþrotaskipta. Þetta kemur fram í yfirlýsingu frá félaginu. Í yfirlýsingunni kemur fram að „óeðilegir viðskiptahættir“ HiFly hafa orðið þess valdandi að félagið hafði ekki lengur flugvél til umráða og ekki reyndist hægt að fá aðra vél. „Þetta voru á allan máta óviðráðanlegar ástæður.“
Stjórn og stjórnendur Niceair harma að þurftu að aflýsa öllu flugi frá og með 6. apríl 2023. Þetta var gert í ljósi þess að erlendur flugrekstraraðili félagsins, HiFly, missti einu flugvél félagsins vegna vanskila HiFly við eiganda flugvélarinnar. Þetta gerði Niceair ómögulegt að standa við skuldbindingar gagnvart flugfarþegum.
Fyrri yfirlýsing félagsins var þannig: “Þetta er sorgleg niðurstaða í ljósi þess árangurs sem náðst hefur til þessa og góðra framtíðarhorfa, auk þess sem félagið hefur rétt lokið við fjármögnunarlotu sem tryggja á rekstur þess fram veginn, en sú vegferð hefur staðið yfir frá áramótum. Við höfum haldið úti reglulegu áætlunarflugi milli Norðurlands og Kaupmannahafnar og Tenerife síðan í júní á sl ári með 71% sætanýtingu. Við erum búin að sýna fram á að þessi þjónusta er mjög þörf og heimamarkaðurinn hefur reynst meiri og öflugri en vonir stóðu til. Á þessu tímabili hefur veður sjaldnast haft áhrif, en 2% fluga okkar voru með einhvers konar frávik. Flug um Akureyrarflugvöll reyndist ekki vera vandamál um hávetur og var lent og tekið á loft í marglitum viðvörunum á tímabilinu. Þetta er sorgleg niðurstaða fyrir alla. Mest hörmum við þau óþægindi sem af þessu hljótast fyrir okkar viðskiptavini” segir Þorvaldur Lúðvík Sigurjónsson, framkvæmdastjóri.
Viðskiptavinum er bent á að senda erindi sín á niceair@niceair.is
Discussion about this post