þorskaflinn hefur áratugum saman verið um 200 þúsund tonnum minni á hverju ári en hann hefði getað verið. Svo eru menn að gera veður út af tapaðri loðnuvertíð, sem stafar m.a. af allt of stórum þorskstofni. Loðnan er nefnilega aðalfæða þorsksins á grunnslóð fyrir norðan tvö fyrstu æviár hennar.
Jón Kristjánsson fiskifræðingur hefur í áratugi bent á að fiskveiðistjórnunarkerfið á Íslandi sé meingallað, bæði hvað varðar veiðar og brottkast ofl. Ekki hefur verið hlustað á ráðgjöf hans hér á landi en augu margra hafa opnast nú mörgum áratugum seinna í ríkara mæli og tekið undir með honum enda hefur þorskstofninn aldrei náð sér á strik í því kerfi sem að staðið hefur verið vörð um í áratugi, hinu svokallaða kvótakerfi.
Kristján vill t.d. að strandveiðar verði gefnar frjálsar og rökstutt mál sitt ítarlega en á það hefur heldur ekki verið hlustað. Hann hefur gagnrýnt fiskveiðikerfið harkalega og m.a. kallað þorskinn hina heilögu kú Hafró og rökstutt þá fullyrðingu í greinum sínum.
Brostnar vonir, þorskstofninn farinn að dragast saman
Vísitala ýsu lækkaði líka og vísitala ufsa lækkaði verulega svo vitnað sé beint í skýrsluna en ufsastofninn minnkar mikið þrátt fyrir að miklu minna hafi verið veitt úr stofninum en ráðgjöfin gerði ráð fyrir. Þá er nýliðun þorsks ekki beysin, árgangur 2016 lélegur en sá frá 2017 virðist (ennþá) nærri meðallagi. Samt hefur hrygningarstofn þorsks verið risastór í mörg ár eða síðan makríllinn kom inn í lögsöguna og fóður varð til handa stórum fiski eftir hrygningu.
Þegar verkefnastjóri togararallsins, fiskifræðingur, var spurður hvort ekki hefði mátt vænta betri nýliðunar hjá sterkum þorskstofni heldur en raun hefur verið síðustu ár svaraði hann að það hafi í sjálfu sér ekki verið verkefni þessa leiðangurs að meta samband hrygningarstofns og nýliðunar.„Það virðist hafa vera mikil hrygning í gangi og því er ekki að neita að við hefðum viljað sjá þennan stóra hrygningarstofn skila meiri nýliðun. Hún hefur ekki verið í réttu hlutfalli við stærð hrygningarstofnsins, sem segir manni þá að einhverjir aðrir þættir hafa áhrif á árgangastærð. Á næstu árum verður væntanlega lögð aukin áhersla á rannsóknir á nýliðun til að reyna að átta sig betur á stöðunni,“ segir verkefnisstjórinn.
Það blasir við og hefur gert lengi að ekki er líffræðilegur grundvöllur fyrir fiskveiðistefnu Hafró. Margir fræðimenn hafa gagnrýnt það sem kallast veljandi veiðar, veiða stærsta og besta fiskinn en forðast að veiða þá smærri, nokkuð sem leiðir til hungurs og vanþrifa hjá smáfiski. Niðurstöður stofnmælinga nú sýna að 1–5 ára þorskur er horaður og á það einkum við 4 ára gamlan fisk. Gefa þær niðurstöður ekki augljóslega til kynna að auka beri sóknina í smáfisk?
Hjá mörgum þorskstofnum hefur verið sýnt fram á að öfugt samband er milli hrygningarstofns og nýliðunar, sem má þá skýra þannig að þegar hrygningarstofninn er stór, og þar með heildarstofninn, þá er ekki pláss fyrir meiri ungfisk. Þannig komu tveir stærstu árgangar í seinni tíð, 1983 og 1984 undan litlum hrygningarstofni, sem var um 140 þús. tonn, en nú er hrygningarstofninn nær fjórfaldur á við það og er að gefa sáralitla nýliðun. Enda sagði leiðangursstjórinn að menn yrðu að „reyna að átta sig betur á stöðunni“.
Þessi aðferðafræði, að byggja upp stærri þorskstofn til að unnt verði að veiða meira hefur gersamlega brugðist. Lagt var á stað með að væri ráðgjöf Hafró fylgt yrði unnt að veiða 500 þús tonn af þorski árlega. Það hefur heldur betur brugðist, nú erum við að slefa upp í 260 þús. tonn og líkur eru á því að aflinn verði skorinn niður í vor, verði 20% aflareglunni fylgt, en allar líkur eru á því, en hún virðist háð alþjóða samningum því Hafró er ekki sjálfstæð og þarf að bera allt undir ICES.
Þessi regla, að veiða minna en við gerðum áratugum saman, að taka nú 20% úr stofninum í stað 35% áður, hefur þýtt að þorskaflinn hefur áratugum saman verið um 200 þús tonnum minni á hverju ári en hann hefði getað verið. Svo eru menn að gera veður út af tapaðri loðnuvertíð, sem stafar m.a. af allt of stórum þorskstofni. Loðnan er nefnilega aðalfæða þorsksins á grunnslóð fyrir norðan tvö fyrstu æfiár hennar.

Hér má sjá samband hrygningarstofns og nýliðunar frá árinu 1964.
Tímabilið 1964-1985 er meðalnýliðun um 220 milljónir 3 ára fiska, en frá 1986 er hún aðeins 140 milljónir fiska að meðaltali á ári. Þrátt fyrir gríðarlega stækkun hrygningarstofnsins frá aldamótum er nýliðun óbreytt. Tveir stærstu árgangar í seinni tíð, 1983 og 1984 komu undan litlum hrygningarstofni, sem taldi aðeins um 140 þúsund tonn, fjórðungur þess sem hann er nú. Punktalínan sýnir meðaltal tímabila.