Jarðskjálfi að stærðinni þrír komma þrír mældist í Torfajökli laust eftir klukkan tvö í dag. Í tilkynningu frá Veðurstofu Íslands kemur fram að hrina hafi staðið yfir á svæðinu frá því í nótt og nokkrir minni skjálftar mælst. Allir hafa þeir mælst tveir komma einn að stærð eða minni.
Græn stjarna er á kortinu yfir Torfajökli.
Um 450 jarðskjálftar mældust með SIL-mælakerfi Veðurstofu Íslands í vikunni, tæplega 100 færri en í síðustu viku. Stærsti skjálfti vikunnar var þann 12. júlí kl. 16:41 í vestanverðri Torfajökulsöskjunni, 3,2 að stærð. Jarðskjálftahrina var á Reykjaneshrygg, tveir skjálftar voru 3,1 að stærð. Svipuð virkni var í Öræfajökli í þessari viku og síðustu viku. Talsvert fleiri skjálftar mældust í Mýrdalsjökli þessa vikuna miðað við fyrri viku.
Suðurland
Á annan tug skjálfta mældust á Hengilssvæðinu, allir um og innan við eitt stig. Ríflega 40 jarðskjálftar voru staðsettir í Ölfusi, flestir í smáskjálftahrinu sem hófst laust fyrir miðnætti þann 8. júlí, um fimm kílómetra austur af Raufarhólshelli, og stóð hrinan fram á nóttina. Um tugur smáskjálfta mældist hér og þar á Suðurlandi. Tveir smáskjálftar mældust, í vikulokin, við Heklu.
Reykjanesskagi
Þann 13. júlí, laust fyrir klukkan 20:00, hófst jarðskjálftahrina skammt norðnorðaustur af Geirfugladrangi á Reykjaneshrygg. Hrinan stóð með hléum fram eftir næsta degi. Tveir skjálftar voru 3,1 að stærð og mældust þeir báðir þann 14 júlí. Sá fyrri kl. 04:58 og síðari kl. 05:14. Um 90 jarðskjálftar mældust alls á Reykjaneshrygg.
Um 30 skjálftar voru staðsettir á Reykjanesskaganum og er það svipaður fjöldi og vikuna á undan. Flestir skjálftarnir voru við Krýsuvík en nokkrir vestar á skaganum.
Norðurland
Ríflega 70 jarðskjálftar mældust á og úti fyrir Norðurlandi og er það mun minni virkni en í síðustu viku þegar hátt í 300 skjálftar mældust, flestir í skjálftahrinu sem var vestur af Kópaskeri og lauk í vikulokin. Um 40 skjálftar mældust í Öxarfirði, í tveimur þyrpingum, stærstu um og rétt yfir tveimur stigum, aðrir minni. Nokkrir skjálftar voru austur af Grímsey, allir um og rétt yfir einu stigi. Rúmlega 10 skjálftar mældust í nágrenni Flateyjar á Skjálfanda, allir litlir.
Stakur skjálfti var staðsettur 11. júlí kl. 01:47, skammt norður af Blöndulóni, 1,7 að stærð. Sama dag kl. 23:08 var skjálfti, sömu stærðar, um fimm kílómetrum vestan við Langavatn á Mýrum.
Hálendið
Tæplega 60 skjálftar mældust í Vatnajökli, litlu færri en í fyrri viku. Fimmtán smáskjálftar mældust í Öræfajökli og er það nánast sami fjöldi og í síðustu viku. Fimmtán smáskjálftar mældust einnig á svæðinu austur af Bárðarbungu, þar sem gangurinn beygir til norðurs og skjálftar eru oftast á meira dýpi en annars staðar í jöklinum. Nokkrir litlir skjálftar voru í ganginum undir Dyngjujökli, við Bárðarbungu og í Grímsvötnum. Stærsti skjálftinn í jöklinum var tæp tvö stig og var það stakur skjálfti undir sunnanverðum Köldukvíslarjökli.
Á svæðinu norður af Vatnajökli mældist svipaður fjöldi jarðskjálfta og í síðustu viku, ríflega 40. Rúmlega 20 voru staðsettir við Öskju og tæplega 20 við Herðubreið. Allir skjálftarnir voru innan við tvö stig. Stakur skjálfti mældist í Langjökli og annar í Hofsjökli.
Mýrdalsjökull
Hátt í 40 jarðskjálftar mældust í Mýrdalsjökli, talsvert fleiri en í síðustu viku. Flestallir voru innan Kötluöskjunnar. Stærsti skjálftinn var 14. júlí kl. 10:04, 2,5 að stærð, aðrir mun minni.
Tæplega 20 jarðskjálftar mældust á Torfajökulssvæðinu. Stærsti skjálftinn var þann 12. júlí kl. 16:41 í vestanverðri Torfajökulsöskjunni, 3,2 að stærð, aðrir voru mun minni. Tilkynning barst um að stærsti skjálftinn hefði fundist í Landmannahelli.