Ferðaábyrgðasjóður – endurgreiðslur til neytenda vegna pakkaferða
Alþingi hefur samþykkt stofnun Ferðaábyrgðasjóðs í kjölfar heimsfaraldurs kórónuveiru.
Sjóðurinn var settur á fót þar sem ekki hafa allar ferðaskrifstofur getað staðið undir lögboðnum endurgreiðslum á pakkaferðum sem hefur verið aflýst eða þær verið afbókaðar vegna heimsfaraldursins. Honum er ætlað að veita þessum ferðaskrifstofum lán til að standa skil á endurgreiðslum til neytenda og tryggja þannig rétt þeirra auk þess að aðstoða ferðaskrifstofur í erfiðu rekstrarumhverfi um þessar mundir. Eftirlitsstofnun EFTA hefur yfirfarið og samþykkt þessa ráðstöfun með tilliti til ríkisstyrkjaregla.
Ferðaskrifstofur munu geta sótt um lán hjá sjóðnum sem nemur ógreiddum endurgreiðslukröfum. Lánunum skal eingöngu ráðstafað til að endurgreiða ferðamönnum lögboðnar endurgreiðslukröfur á hendur ferðaskrifstofum.
Ferðamálastofa tekur við og afgreiðir lánsumsóknir fyrir hönd Ferðaábyrgðasjóðs og hefur eftirlit með framkvæmd laganna. Hægt verður að sækja um hjá sjóðnum í byrjun næstu viku.
Ferðamálaráðherra hefur jafnframt hafið undirbúning þess að leggja af núverandi tryggingakerfi með því að setja á stofn tryggingasjóð sem til framtíðar muni sjá um að tryggja neytendum endurgreiðslur komi til gjaldþrots eða rekstrarstöðvunar ferðaskrifstofu.
https://gamli.frettatiminn.is/logmannsstofan-malsvari-rekur-innheimtumal-a-hendur-ferdaskrifstofu-vegna-ferdar-menntaskolans-a-akureyri/