Maður í annarlegu ástandi var handtekinn í Kópavogi grunaður um brot á barnaverndarlögum. Hann hafði viðhaft ógnandi hegðun í garð barna við skiptistöð Strætó. Hann verður vistaður í fangageymslu þangað til hann verður hæfur til skýrslutöku. Önnur helstu mál í dagbók lögreglu voru þessi:
- Í vesturborginni var maður í annarlegu ástandi handtekinn grunaður um rán, en hann er grunaður um að hafa rænt fjármunum af barni. Maðurinn er vistaður í fangageymslu lögreglu þangað til hann verður hæfur til skýrslutöku.
- Tilkynnt var um þjófnað á nokkru magni kjöts úr verslun í austurborginni. Þjófurinn komst undan en málið er í rannsókn.
- Lögregla hafði afskipti af börnum sem tvímenntu á Hopp hlaupahjóli. För þeirra var stöðvuð og rætt við foreldra.
- Tilkynnt var um mann sem svaf ölvunarsvefni við verslunarmiðstöð í austurborginni. Hann verður vistaður í fangageymslu lögreglu þangað til ástand hans batnar.
- Ökumaður var kærður fyrir akstur án gildra ökuréttinda og fyrir að nota ekki ökumannskort við akstur hópbifreiðar.
- Ökumaður var handtekinn vegna gruns um ölvun við akstur. Honum var sleppt eftir sýnatöku.
- Tilkynnt var um þjófnað í verslun í Kópavogi. Málið var afgreitt með vettvangsskýrslu.
- Lögreglumenn í eftirliti í Kópavogi fundu kannabislykt sem leiddi þá að íbúð þar sem íbúi framvísaði kannabisefnum og kannabisplöntu í ræktun. Efnin og plantan voru haldlögð og skýrsla tekin á vettvangi.
- Ökumaður var kærður fyrir að aka sviptur ökuréttindum og fyrir notkun farsíma án handfrjáls búnaðar.
- Ökumaður var handtekinn vegna gruns um akstur undir áhrifum fíkniefna. Honum var sleppt eftir sýnatöku.
Umræða