-0.2 C
Reykjavik
Þriðjudagur - 7. febrúar 2023
Auglýsing

Frumvarp til laga um skráningu einstaklinga

Auglýsing

Auglýsing

Nýjar fréttir

Auglýsing

 

Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra

Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, mælti á Alþingi í gær fyrir frumvarpi til laga um skráningu einstaklinga. Megininntak laganna er hvaða upplýsingar skuli skrá í þjóðskrá, hvernig þær eru skráðar og hvernig þeim er miðlað. Frumvarpið felur í sér heildarendurskoðun á lögum um þjóðskrá og almannaskráningu frá 1962.
Markmið frumvarpsins er að gera mögulegt að halda áreiðanlega skrá yfir einstaklinga, að skráning þeirra sé rétt og skapi öruggan grundvöll fyrir tiltekin réttindi og tilteknar skyldur einstaklinga. Þá er það markmið frumvarpsins að skráning upplýsingar í þjóðskrá byggist á bestu fáanlegu gögnum á hverjum tíma.
Í framsöguræðu sinni benti Sigurður Ingi á mikilvægi þjóðskrár hér á landi. „Þjóðskrá er sú skrá sem nær allt okkar samfélag byggist á. Hvort sem litið er til skattheimtu ríkis og sveitarfélaga, bótakerfisins, starfsemi fjármálastofnana eða viðskiptamannakerfis atvinnulífsins gegnir þjóðskráin lykilhlutverki. Þannig skiptir gríðarlega miklu máli að vel sé haldið utan um skrána og það tryggt eftir fremsta megni að skráin sé rétt og örugg,“ sagði ráðherra.
Ráðherra vakti athygli á því í framsöguræðu sinni að með nýju frumvarpi væri að ljúka endurskoðun á þremur megin lagabálkum er varða skráningu einstaklinga. Fyrsta áfanga var náð með samþykkt laga um lögheimili og aðsetur nr. 80/2018 sem komu í stað tveggja eldri lagabálka. Næsta skref felist í frumvarpi um skráningu einstaklinga.
Aðgangur að grunnskrám verði gjaldfrjáls
Í umfjöllun um gjaldtöku af hálfu Þjóðskrár Íslands og fjármögnun stofnunarinnar lýsti ráðherra þeirri skoðun sinni að aðgangur að grunnskrám ríkisins, þar á meðal þjóðskrá, eigi að vera gjaldfrjáls. „Ég trúi því að það myndi hafa jákvæð áhrif á samfélagið, nýsköpun og atvinnulífið að gera þessar upplýsingar gjaldfrjálsar,“ Rekstur Þjóðskrár Íslands nemur tæpum 1,9 milljörðum króna og þar af afli stofnunin sértekna að fjárhæð 930 m.kr. með sölu upplýsinga. Mismuninn yrði að brúa með fjármögnun úr ríkissjóði.
Lagt er til í greinargerð með frumvarpinu að skipaður verði vinnuhópur til að greina samfélagslegan ávinning af því að gera aðgengi að upplýsingum úr þjóðskrá og öðrum grunnskrám stofnunarinnar gjaldfrjálsan og meta hugsanlegan kostnað sem af því hlytist fyrir ríkissjóð.
Frumvarp til laga um skráningu einstaklinga. Helstu nýmæli
Fjallað er um meðhöndlun persónuupplýsinga í takt við ný lög um persónuvernd. Kveðið er á um heimild Þjóðskrár Íslands til vinnslu persónuupplýsinga sem hinn skráði leggur til, stofnunin aflar sjálf eða berast frá þriðja aðila, svo sem öðrum opinberum stofnunum eða eiganda fasteignar svo dæmi sé tekið.
Sérstaklega er kveðið á um hvaða upplýsingar er heimilt að skrá. Ekki er þó um tæmandi upptalningu að ræða heldur helstu upplýsingar. Gert er ráð fyrir að ráðherra verði heimilt með reglugerð að ákveða að skrá skuli aðrar þær upplýsingar sem þörf er á að safna og halda, svo sem netföng einstaklinga svo dæmi sé tekið.
Í fyrsta sinn er kveðið á um hugtakið kennitölu í lögum með þeim hætti sem gert er í frumvarpinu en hingað til hefur skort ákvæði í lög um hver það sé sem gefur einstaklingum kennitölur.
Verði frumvarpið að lögum munu aðeins opinberir aðilar geta haft milligöngu um stofnun kerfiskennitölu líkt og á öðrum Norðurlöndum, en ekki einkaaðilar svo sem bankar. Kerfiskennitölur eru gefnar út vegna einstaklinga sem ekki þurfa að uppfylla, eða uppfylla ekki skilyrði skráningar í þjóðskrá. Í kerfiskennitöluskrá eru í dag rúmlega 75.000 kennitölur.
Gert er ráð fyrir því í framtíðinni, þegar uppfært þjóðskrárkerfi lítur dagsins ljós, að heildarafhending þjóðskrár verði óheimil. Í staðinn verði upplýsingar úr miðlægu skránni sóttar með vefkalli í skránna. Þannig verði allar uppflettingar rekjanlegar, svo sem gert er ráð fyrir í nýjum persónuverndarlögum. Einstaklingar geta einnig óskað eftir upplýsingum um það hverjir hafa verið að fletta þeim upp í þjóðskrá. Í dag er þjóðskráin afhent í heild sinni og síðan fer það eftir því hvernig samning viðkomandi kaupandi er með við Þjóðskrá Íslands hversu oft skráin er uppfærð.
Þá er gert ráð fyrir þeirri nýjung, þegar uppfært kerfi verður tekið í notkun, að hægt verði koma í veg fyrir það að upplýsingum um nafn og/eða lögheimili eða aðsetur viðkomandi og nánustu fjölskyldu verði miðlað úr þjóðskrá.