Elítur viðskiptalífsins keppa um yfirráð á fjölmiðlum
„Grundvallarbreyting hefur orðið á íslenska valdakerfinu frá því um miðbik síðustu aldar. Tengsl elítanna eru minni og fagleg sjónarmið vega þyngra, jafnvel þótt enn verði vart reimleika frá valdakerfi gærdagsins.“
Þetta eru niðurstöður nýrrar bókar um elítur og valdakerfi á Íslandi eftir dr. Gunnar Helga Kristinsson, prófessor í stjórnmálafræði við Háskóla Íslands. Bókin byggir á nokkurra ára rannsóknarvinnu Gunnars Helga og fleiri fræðimanna þar sem m.a. voru gerðar kannanir á viðhorfum forystufólks og elítuhópa í stjórnmálum, viðskiptalífi, embættismannakerfi, menningarlífi og fjölmiðlum. Einnig voru tekin dýpri viðtöl við fulltrúa þessara hópa og rýnt í fyrri rannsóknir annarra fræðimanna, einkum hvað varðar elítur og valdakerfi fyrri tíma.
Samkvæmt niðurstöðum bókarinnar hefur stjórnmálaelítan glatað ítökum og tengsl hennar við elítur viðskiptalífs og hagsmunasamtaka eru veikari áður. Hún hefur líka misst ítök í fjölmiðlum og í fræða- og listaheiminum gegnir hún orðið mjög litlu hlutverki. Þróun í átt til frjálsari markaðsviðskipta og vaxandi fagþróun í opinberri starfsemi hafa grafið undan fyrri valdakerfum.
Hins vegar nýtur t.d. sjávarútvegurinn enn sterkrar áhrifastöðu og elítur viðskiptalífsins keppa um yfirráð á fjölmiðlum. Fyrirgreiðsla gegnir enn nokkru hlutverki við stöðuveitingar hjá hinu opinbera, bæði til að tryggja ítök stjórnmálaflokkanna á mikilvægum embættum og til að verðlauna dygga bandamenn. Það er helst í heimi fræða og lista sem hefðbundin flokkastjórnmál heyra sögunni til, að því er fram kemur í bók Gunnars Helga.
Bókin er gefin út af Háskólaútgáfunni og fræðilegur ritstjóri er Margrét Sigrún Sigurðardóttir, dósent við Viðskiptafræðideild Háskóla Íslands. Bókin er ýmist fáanleg eða væntanleg í helstu bókaverslunum.