Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið stendur fyrir kynningarfundi um niðurstöður könnunar Félagsvísindastofnunar Háskóla Íslands á líðan eldra fólks af íslenskum og erlendum uppruna en í henni var sérstök áhersla lögð á félagslega einangrun og einmanaleika. Fundurinn fer fram á netinu mánudaginn 25. september kl. 10:30-11:15.
Þátttakendur tengjast fundinum með því að smella á hlekk sem settur verður inn á vef félags- og vinnumarkaðsráðuneytisins.
Könnunin var framkvæmd að beiðni ráðuneytisins sem vinnur bæði að framkvæmd aðgerðaáætlunarinnar Gott að eldast og framkvæmdaáætlun í málefnum innflytjenda.
Á kynningarfundinum tekur Guðmundur Ingi Guðbrandsson, félags- og vinnumarkaðsráðherra, fyrstur til máls. Að því búnu kynnir Helgi Guðmundsson, verkefnisstjóri hjá Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands, niðurstöðurnar.
Kynningin verður sem fyrr segir rafræn og er öllum opin.
Umræða