Vorið 2021 taldi meirihlutinn álag af heimilisstörfunum vera svipað og það var fyrir kórónuveirufaraldurinn, eða 76% kvenna og 80% karla en 15% beggja kynja taldi álagið hafa aukist. Hins vegar reyndist töluverður munur á svörum eftir því hvort börn voru á heimilinu eða ekki og hafði álagið aukist hjá fjórðungi með barn eða börn á heimilinu á móti rétt um einum af hverjum tíu á heimilum án barna.
Meiri fjarvinna virðist þó ekki hafa haft teljandi áhrif á verkaskiptingu á heimilum, þ.e. hvernig heimilisstörfum er skipt á milli para, þar sem 83% einstaklinga með börn og 89% einstaklinga á heimilum án barna sögðu verkaskiptinguna vera svipaða nú og áður.
Þó virðist sem frekar hafi orðið vart breytinga á verkaskiptingu á heimilum með börn en barnlausum þar sem 9% einstaklinga með börn sögðu hana vera jafnari nú en áður, á móti 6% einstaklinga á barnlausum heimilum, og 7% svarenda með börn sögðu hana ójafnari nú en áður á móti 4% barnlausra.
Fleiri stundir í heimilisstörf á landsbyggðinni
Að meðaltali verja konur 9,2 klukkustundum á viku í heimilisstörf og karlar 7,1, þeir sem búa einir verja minni tíma í heimilisstörf en fólk í sambúð og fólk í sambúð með börn á heimilinu meiri tíma en sambúðarfólk án barna. Slíkir þættir hafa þó nokkuð meiri áhrif á konur en karla, t.d. verja konur í sambúð með börn 2,8 klukkutímum meira í heimilisstörf en konur í sambúð án barna, á meðan munurinn á milli karla í sömu stöðum er 2,4 klukkustund.
Á mynd 1 sést áætlaður heildartími para við heimilisstörf. Eins og búast mátti við er samtala para með börn á heimilinu hærri en samtala barnlausra para en myndin sýnir líka að fólk á landsbyggðinni ver meiri tíma í heimilisstörf en fólk á höfuðborgarsvæðinu.
Tími í umönnun
Konur verja um 10 klukkustundum á viku að meðaltali í umönnun barna og annarra ættingja, en karlar tæpum 8 klukkustundum. Þetta meðaltal segir þó afar takmarkaða sögu, eins og sést þegar fólk með börn á heimilinu er borið saman við fólk á barnlausum heimilum, en konur og karlar með börn á heimilinu verja 22 og 17 klukkustundum í umönnun á viku á móti ríflega 2 klukkustundum hjá fólki af báðum kynjum sem ekki er með börn. Þegar tíminn sem fólk ver í umönnun er skoðaður eftir búsetu sést að barnlaus pör verja samtals tæpum sex klukkutímum á viku í umönnun hvort sem þau búa innan eða utan höfuðborgarsvæðisins. Hins vegar munar tæpum þremur klukkustundum á tíma sem varið er í umönnun á heimilum með börn, eftir búsetu, þar sem samtala para með börn á landsbyggðinni er ríflega 46 klukkustundir en para með börn á höfuðborgarsvæðinu tæpir 44 klukkutímar.
Karlar sáttari við sitt framlag í heimilisverkunum
Um 55% telja að þau geri u.þ.b. sinn hluta og er ekki munur á þessu hlutfalli eftir búsetu. Hins vegar, þegar litið er til kyns, eru karlar umtalsvert líklegri til þess að vera sáttir við sitt framlag eða 62% á móti 49% kvenna. Konur eru á móti líklegri til þess að telja sig gera meira en þeim ber því 46% kvenna segjast gera meira en sinn hluta en 9% karla. Auk þess finnst næstum þriðjungi karla, eða 29%, þeir gera minna en þeim ber en aðeins 6% kvenna.
Gera verður greinarmun á sanngirni verkaskiptingar og jöfnuði enda getur verkaskipting til dæmis verið á þann hátt að annar aðilinn sér alfarið um heimilið á meðan hinn sinnir engum heimilisverkum og báðum aðilum fundist það sanngjarnt.
Heimilisstörf í kórónuveirufaraldrinum 191121 (xlsx)