Staða leigjenda
Hugur okkar er hjá Grindvíkingum þessa dagana. Starfsfólk leigjendaaðstoðar Neytendasamtakanna hefur síðastliðna daga fengið fyrirspurnir frá leigjendum í Grindavík sem velta fyrir sér stöðu sinni.
Neytendasamtökin reka leigjendaaðstoð með þjónustusamningi við innviðaráðuneytið. Á leigjendur.is er að finna upplýsingar um réttindi og skyldur fyrir leigjendur og leigusala
Ljóst er að grindvískir leigjendur geta ekki búið í húsnæði sínu þar sem þeim, eins og öðrum, var gert að yfirgefa bæinn þann 10. nóvember sl. Mikil óvissa ríkir um hvenær fólk fái að snúa aftur og hvort leiguhúsnæði hafi orðið fyrir skemmdum. Þá er einnig ljóst að leigusölum er ómögulegt að „halda hinu leigða húsnæði í leiguhæfu ástandi,“ eins og þeim er skylt samkvæmt 19.gr. 3.mgr. húsaleigulaga. Því er mikilvægt að leigjendur bregðist við og hafi samband við leigusala sína. Það eru hagsmunir beggja að semja um útfærslu á uppsögn, afslátt eða greiðsluhlé á meðan óvissan ríkir. Sé enginn samningsvilji getur leigjandi gripið til riftunar. Mikilvægt er að hafa öll samskipti og samninga skriflega, svo ekki komi upp ágreiningur um mismunandi skilning á síðari stigum.
Réttur til að rifta húsaleigusamningi
Húsaleigulögin taka ekki beint á þeim aðstæðum sem uppi eru í Grindavík, aðallega þar sem um er að ræða óviðráðanlegar aðstæður sem hvorki er leigjanda eða leigusala að kenna á neinn hátt. Því ríkir nokkur réttaróvissa. En þótt lögin taki ekki á óviðráðanlegum aðstæðum, eins og jarðskjálftum eða eldgosi, hefur leigjandi rétt til að rifta leigusamningi ef:
- …húsnæðið spillist svo á leigutímanum, af ástæðum sem ekki verða raktar til leigjanda að það nýtist eigi lengur til fyrirhugaðra nota eða teljist heilsuspillandi að mati heilbrigðisyfirvalda (60. gr. 3.mgr.).
- … eða, ef réttur leigjanda er verulega skertur vegna laga eða annarra opinberra fyrirmæla eða vegna þess að hann fer í bága við kvaðir sem á eigninni hvíla (60. gr. 5 mgr.).
Riftun á að vera skrifleg (SMS eða tölvupóstur nægir) og þarf að fylgja rökstuðningur fyrir henni. Þá þarf leigjandi að skila af sér lyklum til leigusala. Riftun gæti til dæmis litið svona út,:
[Staður, dagsetning]
Ég, undirrituð/undirritaður, rifti hér með leigusamningi á [íbúð og heimilisfang] með vísan í 3. mgr. og 5. mgr. 60. greinar húsaleigulaga. Meðal annars í ljósi fyrirmæla um rýmingu Grindavíkur get ég ekki nýtt hið leigða og óska eftir viðræðum um hvernig ég geti nálgast eigur mínar.
Virðingarfyllst, [Nafn, kennitala]
Í húsaleigulögunum kemur fram að leigjandi greiði leigu allt þar til hann hefur tæmt íbúðina, sem er ómögulegt við núverandi aðstæður. Þó lögin taki ekki á því telja lögfræðingar Neytendasamtakanna líklegt að litið verði til þess að riftunin haldi, þó skil íbúðar sé ekki með fullkomnum hætti. Óvíst er hvenær íbúar geta snúið aftur til Grindavíkur, og vilji leigjandi rifta leigusamningi, væri eðlilegast að leigusali og leigjandi kæmust að samkomulagi um hvernig leigjandi nálgist eigur sínar.
Afsláttur af leiguverði
Þegar fólki verður leyft að flytja aftur til Grindavíkur, geta leigjendur samið um afslátt af leiguverði á meðan ráðist er í nauðsynlegar viðgerðir á leiguhúsnæðinu og innviðum. En í lögunum (21.gr. 2.mgr.) er kveðið á um afslátt af leiguverði í tengslum við skert afnot meðan á viðhaldi stendur. Samkomulag um afslátt skal vera skriflegt.
Staða leigusala
Leigjendaaðstoð Neytendasamtakanna hafa líka fengið fyrirspurnir frá fólki sem lánar eða leigir út íbúðir til burt hrakinna Grindvíkinga. Leigjendaaðstoðin minnir á mikilvægi þess að gera ávallt skriflegan leigusamning og að húsaleigulög gildi, jafnvel þó ekki komi til greiðsla frá leigutaka (þegar húseigandi lánar íbúð sína endurgjaldslaust). Því er mikilvægt að leigusalar og leigjendur séu meðvitaðir um réttindi og skyldur sínar. Hér má finna góðar upplýsingar um allt sem viðkemur leigu á íbúðarhúsnæði á íslensku, ensku og pólsku.
Frekari upplýsingar
Sértu í einhverjum vafa er upplýsingar að finna á leigjendur.is, bæði fyrir leigjendur og leigusala. Hægt er að hafa senda fyrirspurnir hér eða hringja í okkur í síma 545 1200 þriðjudaga og fimmtudaga milli 12:30 og 15:00.