VR og Neytendasamtökin fagna dómi Héraðsdóms Reykjavíkur í máli sem höfðað var gegn Samkeppniseftirlitinu vegna breytinga sem gerðar voru á búvörulögum.
Frumvarp um breytingar á búvörulögum var lagt fram undir lok síðasta árs. Það tók umtalsverðum breytingum í meðförum atvinnuveganefndar og gerðu fjölmargir aðilar alvarlegar athugasemdir við þær breytingar sem fólu í sér undanþágu afurðastöðva í kjötiðnaði frá samkeppnislögum. Í sameiginlegri umsögn VR, Neytendasamtakanna, Samtaka verslunar og þjónustu og Félags atvinnurekenda kom fram að breytingarnar myndu skaða hagsmuni neytenda, launafólks og verslunar og vega að forsendum kjarasamninga á almennum vinnumarkaði, sem þá voru nýundirritaðir. Þær myndu óhjákvæmilega leiða til hækkunar á verði á kjötvörum og fóðra verðbólguna. Sjá umsögn samtakanna til atvinnuveganefndar Alþingis.
Eftir samþykkt frumvarpsins brugðust kjötafurðastöðvar við með uppkaupum og verðlag á kjötvörum hækkaði. Þeirri kröfu var beint til Samkeppniseftirlitsins að það brygðist við þessari þróun. VR og Neytendasamtökin studdu við þessa málsókn. „Þessi dómur er áfellisdómur yfir vinnubrögðum Alþingis en sýnir svart á hvítu að hagsmunaðilar geta ekki komið bakdyramegin að lagasetningu þingsins,“ segir Halla Gunnarsdóttir, varformaður VR og starfandi formaður. „Það er mikilvægt að Samkeppniseftirlitið taki sameiningar kjötafurðarstöðva til tafarlausrar skoðunar til hagsbóta fyrir neytendur og að Alþingi læri af þessu,“ segir Breki Karlsson, formaður Neytendasamtakanna.
Fékk lögum breytt sem gera Kaupfélagi Skagfirðinga kleift að eignast Kjarnafæði Norðlenska