Kærunefnd vöru- og þjónustukaupa úrskurðaði nýlega að Smyril line þyrfti að endurgreiða neytenda 40.000 kr. vegna oftekinna gjalda við gerð farmbréfs. Vildi félagið innheimta 50.000 krónur, en við það sætti kvartandi sig ekki og fór því með málið fyrir kærunefndina, sem taldi 10.000 krónur vera sanngjarna upphæð og gerði félaginu að endurgreiða mismuninn.
Fram kemur í úrskurðinum, sem sjá má hér, að neytandinn hafi siglt með Smyril line frá Danmörku til Íslands fyrir um ári. Ferðin var liður í búferlaflutningum neytandans til Íslands. Með í ferð var bifreið hans, skráð í því landi hvar hann áður bjó. Eftir komuna til landsins sendi Smyril line neytandanum kröfu að upphæð 50.000 krónur vegna farmskrárgerðar sem hann greiddi til að forðast innheimtukostnað, með fyrirvara um endurgreiðslu að heild eða hluta. Eins og áður segir mat kærunefndin hæfilegt endurgjald fyrir þjónustuna 10.000 krónur. Bar því Smyril line að endurgreiða neytandanum 40.000 krónur.
Gerð farmbréfa krefst ekki mikillar vinnu, enda eru þau frekar einfaldar skýrslur og flest flutningafyrirtæki innheimta um eða undir 10.000 kr. fyrir slíka vinnslu. Það vissi neytandinn og sætti sig því ekki við fimmfaldan kostnað. Mál þetta sýnir svo ekki verður um villst mikilvægi þess að neytendur standi á rétti sínum. En einnig sýnir þetta hversu mikilvægt er að neytendur hafi skjóta og tiltölulega einfalda leið til að fá úrlausn mála sinna. Þá gerði neytandinn rétt í að greiða gjaldið með fyrirvara.
Eftir að úrskurðurinn var kveðinn upp hafa Neytendasamtökin haft spurnir af fleirum sem hafa verið ofrukkaðir á sama hátt og hafa fengið endurgreitt 40.000 kr. eftir að hafa vitnað í úrskurð kærunefndarinnar. Neytendasamtökin hvetja aðra sem kunna að hafa verið ofrukkaðir af Smyril line að fara fram á endurgreiðslu.