Nýtt starfstímabil Uppbyggingarsjóðs EES fyrir tímabilið 2014-2021 er að hefjast. Markmið Uppbyggingarsjóðsins er að draga úr félagslegu- og efnahagslegu misræmi innan evrópska efnahagssvæðisins og efla tvíhliða samstarf milli EES EFTA-ríkjanna og fimmtán viðtökuríkja í Suður- og Austur-Evrópu.
Með þátttöku í Uppbyggingarsjóðnum er lögð áhersla á að skapa tækifæri fyrir íslenskar stofnanir, fyrirtæki og frjáls félagasamtök til samstarfs í viðtökuríkjunum og auka samskipti milli einstaklinga á Íslandi og í þessum ríkjum
Ísland mun á komandi tímabili leggja áherslu á verkefni á sviði rannsókna, nýsköpunar, menntunar og menningar, orku- og umhverfismála, samfélagslegra umbóta og málefna flóttamanna. Samvinna á sviði jarðvarma hefur fram til þessa verið mikið áherslumál Íslendinga og mun halda áfram í þeim viðtökuríkjum þar sem kostur er. Á komandi tímabili verður aukin áhersla lögð á tvíhliða verkefni milli viðkomandi ríkja og hvers og eins EES EFTA-ríkis og verður um 2% af framlagi til sérhvers ríkis varið til slíkra verkefna. Með þessari nýbreytni í starfinu munu skapast einstök tækifæri til þess að efla samskipti Íslands og einstakra ríkja.
Til þess að tryggja sem best aðstoð við fyrirtæki og stofnanir á Íslandi, sem hafa áhuga á að taka þátt í verkefnum á vegum sjóðsins, munu Rannís og Orkustofnun halda áfram hlutverki sínu sem samstarfsaðilar stjórnvalda á Íslandi og í viðtökuríkjunum. Mannréttindaskrifstofa Íslands mun einnig aðstoða vegna samstarfs við frjáls félagasamtök.
Utanríkisráðuneytið hvetur íslenska aðila, samtök, fyrirtæki og stofnanir að kynna sér tækifæri innan Uppbyggingarsjóðsins og mun á næstunni koma upplýsingum reglulega á framfæri um sjóðinn.
Í næstu viku verða eftirfarandi fundir haldnir:
- Miðvikudagur 23. janúar kl. 10.00 hjá Rannís, Borgartúni 30, Reykjavík. Almenn kynning á sjóðnum.
- Miðvikudagur 23. janúar kl. 12.00 í Háskóla Íslands, Háskólatorgi, stofa HT-300. Almenn kynning á sjóðnum.
- Miðvikudagur 23. janúar kl. 15.30 í samstarfi við Mannréttindaskrifstofu Íslands, haldinn í utanríkisráðuneytinu, Rauðarárstíg 25. Kynning á áætlunum sjóðsins tengdum mannréttindamálum og lýðræðisuppbyggingu.
- Fimmtudagur 24. janúar kl. 10-15 Framadagar í Háskólanum í Reykjavík. Almenn kynning á sjóðnum og tækifærum vegna starfsnáms.
- Föstudagur 25. janúar kl. 9.30 hjá Sambandi íslenskra sveitarfélaga, Borgartúni 30, Reykjavík. Kynning með áherslu á tækifæri tengd samstarfi við sveitarfélög.
- Föstudagur 25. janúar kl. 11.00 hjá Matís, fundarherberginu Súlur, Vínlandsleið 12, Reykjavík. Kynning á áætlunum sjóðsins um bláa hagkerfið.
Fleiri fundir verða haldnir á næstunni um Uppbyggingarsjóðinn. Jafnframt má finna ítarlegar upplýsingar um sjóðinn á Stjórnarráðsvefnum.