40 ár eru frá Snjó- og krapaflóðunum á Patreksfirði, þann 22. janúar 1983, sem tóku með sér fjögur líf. Húsin hrundu eins og spilaborg undan flóðinu, og sum þeyttust út í fjöru og fólki sem var á efri hæð, var bjargað úr húsi sem fór í heilu lagi út í fjöru.
Laugardaginn 22. janúar 1983 féllu tvö krapaflóð á byggðina á Patreksfirði með skömmu millibili, með þeim afleiðingum að fjórir einstaklingar létust. Nokkrum mínútum eftir að fyrra flóðið féll voru allir sem vettlingi gátu valdið komnir á flóðasvæðið þar sem mikil eyðilegging blasti við.
Í fyrstu var óttast að nærri 30 manns væri saknað og stór hluti þeirra væru börn sem voru við leik í farvegi flóðsins skömmu áður en það féll.
Tæpum tveimur klukkustundum síðar féll annað flóð, sem einnig olli manntjóni og miklu tjóni á húsum. Í kjölfarið óttuðust fjölmargir að fleiri flóð myndu falla með þeim afleiðingum að stór hluti bæjarins myndi lenda undir þeim.
Nánast allur bærinn var rýmdur og gistu í kringum 500 manns í tveimur fjöldahjálparstöðvum um nóttina og í heimahúsum sem talin voru standa á öruggum stað. Fjöldi mynda eru í bók um flóðin á Patreksfirði og viðtöl við þá sem voru á hamfarasvæðinu og urðu vitni að flóðunum.
,,Þau grófu upp vini og ættingja og fóru svo heim“
Höfundur bókarinnar Krapaflóðin á Patreksfirði er Egill St. Fjeldsted sem er fæddur og uppalinn á Patreksfirði og bjó um tíma á Ísafirði og spilaði körfubolta með KKÍ. Fróðlegt viðtal var við hann í sjónvarpsþætti hjá Sigmari Guðmundssyni.
Krapaflóðin á Patreksfirði
Bókin er mjög vönduð og var verkefni höfundar sem lokaverkefni í háskólanum í sagnfræði og mjög mikil vinna er lögð í viðtöl við þá sem stóðu í fremstu víglínu í aðgerðum, í kjölfar flóðanna sem og fólk sem varð vitni af því sem gerðist þennan örlagaríka dag.
Margt kemur fram í bókinni sem hefur ekki áður komið fram en Egill hafði orð á því í viðtali við Sigmar Guðmundsson að fólk hefði bara haldið lífinu áfram án þess að fá nokkra áfallahjálp eða annað, það þekktist bara ekki á þessum árum og fólk beit bara á jaxlinn.
Þegar krapaflóðin tvö féllu með skömmu millibili á Patreksfirði laugardaginn 22. janúar 1983 voru flestir bæjarbúar að hafa sig til fyrir þorrablót sem átti að fara fram um kvöldið. Í viðleitni til að skilja hvað gerist þegar slíkar náttúruhamfarir falla á íbúðabyggð með þeim afleiðingum að fjórar manneskjur látast og 33 verða heimilislausar var m.a. kafað djúpt ofan í líf fjölskyldu Vigdísar Helgadóttur. Í þeirri frásögn lýsir hún því þegar flóðið fór í gegnum heimili hennar með þeim afleiðingum að ung dóttir hennar lést. Einnig gefur hún innsýn í hvernig líf fólks breytist við slíka lífsreynslu og hvaða atburðarás tekur við næstu daga, vikur, mánuði, ár og áratugi þegar slíkan atburð ber að garði.
Fjöldi íbúa gefa innsýn í hvað gerðist þennan dag í viðtölum við höfund bókarinnar. Fjórir þeirra voru líkt og Vigdís á heimilum sínum þegar fyrra flóðið skall á húsum þeirra með þeim afleiðingu að þau stórskemmdust eða gjöreyðilögðust.
Aðrir sem rætt er við tóku þátt í björgunaraðgerðum með ýmsum hætti og þurftu jafnvel að grafa upp nána ættingja úr húsarústum. Líf flestra þessara einstaklinga breytist með einhverjum hætti þennan dag og er það meðal annars til umfjöllunar í bókinni.