Óvissustigi vegna snjóflóðahættu hefur verið lýst yfir á Vestfjörðum
Veðurútlit með tilliti til snjóflóða
Spáð er NA-N stórhríð á norðanverðum Vestfjörðum og Norðurlandi á fimmtudag og föstudag. Veðrið ætti að ganga niður aðfaranótt laugardags. Búast má við um 150-200 mm uppsafnaðri úrkomu í fjöllum á vestfjörðum og 200-250 mm á Tröllaskaga.
Skrifað af vakthafandi sérfræðingi 20. mar. 11:18
Spáð er austan til norðaustan stormi með snjókomu í nótt. Þegar líður á nóttina snýst vindur meira til norðurs miðað við nýjustu spár og kólnar. Á fimmtudag og föstudag er gert ráð fyrir norðaustan til norðan stórhríð, skafrenningi með takmörkuðu eða lélegu skyggni og versnandi akstursskilyrðum og að vegir undir bröttum fjallshlíðum lokist vegna snjóflóða.
Ekki er talin hætta í byggð að svo stöddu en aðstæður geta breyst þegar líður á veðrið.
Á Norðurlandi er einnig gert ráð fyrir slæmu veðri seinni part fimmtudags og föstudag með mikilli snjókomu og hvassri norðanátt. Ekki hefur verið lýst yfir óvissustigi vegna snjóflóðahættu á Norðurlandi en staðan verður endurmetin á morgun.
Á Austfjörðum spáir ákafri en skammvinnri úrkomu í nótt í formi rigningar en snjókomu efst í fjöll.
Fólki er bent á að sýna varkárni og fylgjast með veðurspám. Snjóflóðavakt Veðurstofunnar fylgist vel með aðstæðum.
Snjógryfjur víða um land 20. mars
Tröllaskagi
Þrjár skyndigryfjur og nokkur stöðugleikapróf voru gerð í Burstabrekkudal inn af Ólafsfirði. Gerð voru þrjú samþjöppunarpróf og tvö útvíkku samþjöppunarpróf og bentu þau öll til þess að mjög veikt lag væri í snjónum á 20-25 cm dýpi. Veikleikinn fannst í mismunandi viðhorfum og er í nýlegum misþéttum og vindsköfnum snjó sem fallið hefur og skafið síðustu daga. Meðan athuganir voru gerðar féll náttúrulegt snjóflóð í dalnum.
Þessar athuganir ásamt öðrum snjóflóðunum sem fallið hafa á svæðinu síðustu daga benda til þess að varasamar snjóaðstæður séu á Tröllaskaga og talsverð snjóflóðahætta í brattlendi. Gera þarf ráð fyrir að fleiri og stærri snjóflóð falli á fimmtudag og föstudag þegar spáð er N-NA hríðarveðri.
Norðanverðir Vestfirðir
Gerðar voru snjógryfjur bæði í Kistufelli inn af Skutulsfirði og í Skálarfjalli inn af Syðridal. Báðar gryfjurnar og stöðugleikaprófin benda til þess að snjór sé fremur stöðugur og að víðast þurfi mikið viðbótarálag til að snjóflóð fari af stað. Ef þau hins vegar fara af stað geta þau orðið stór.
Gryfjan í Kistufelli var í 610 m hæð og suðurvísandi brekku. Hún sýndi tæpa 50 cm af þéttum vindpökkuðum snjó ofan á íslagi og þar undir var harðfenni eftir umheypingar. Stöðugleikaprófanir bentu til þess að snjórinn væri ansi stöðugur, brot kom á 30 cm dýpi við mikið álag og það var ekki slétt.
Gryfjan í Skálarfjalli var tekin í 600 m hæð og austurvísandi brekku. Hún sýndi tæpa 60 cm af vinsköfnum snjó, ekki jafn þéttum og í Kistufelli. Neðan við var stífur gamall snjór. Stöðugleikapróf gaf brot við lítið álag á 3 cm dýpi, undir skel sem var á yfirborðinu og brot við mikið álag á 90 cm dýpi.
Sunnanverðir Vestfirðir
Tvær snjógryfjur voru teknar í Patreksfirði, í Raknadalshlíð í 50 m hæð og á Mikladal í 350 m hæð. Báðar gryfjurnar bentu til þess að snjór væri sæmilega stöðugur. Neðarlega í hlíðum er rakur einsleitur snjór en ofar er vindpakkaður snjór ofan á gömlu lagskiptum snjó sem gengið hefur í gegnum umhleypingar.
Gryfjan á Mikladal var í SV vísandi brekku og sýndi þéttan vindpakkaðan snjó ofan á eldri snjó sem gengið hafði í gegnum umhleypingar. Samþjöppunarpróf gaf brot við mikið álag á 98 cm dýpi, á lagmótum í gamla snjónum.
Gryfjan í Raknadalshlíð var í SV vísandi brekku og sýndi rakan vindskafinn snjó með þunnri skel ofan á sem myndaðist í hlýindum seinnipart þriðjudags. Yfirborðsskelin féll saman við lítið álag. Ekki er talið að slík skel hafa myndast ofarlega í fjöllum því þar fór hiti ekki yfir frostmark.