Grunaður um manndráp
Af rannsóknargögnum málsins verður ráðið að bróðirinn sé undir sterkum grun um að hafa veitt hinum látna áverka seint að kvöldi 30. mars eða aðfaranótt 31. mars síðastliðinn er leiddu hann til dauða. Sannist ásetningur til manndráps varðar þessi háttsemi allt að ævilöngu fangelsi. Hafi bani hlotist af ætlaðri líkamsárás, án þess að ásetningur hafi verið til manndráps, varðar hún allt að 16 ára fangelsi, sbr. almenn hegningarlög.
Kærða sé gefið að sök að hafa veist með ofbeldi hinum látna með þeim afleiðingum að hann hafi hlotið fjölda alvarlegra áverka á höfði og síðu og látist af völdum áverkanna.
Málavextir og rannsókn – Ekki fyrir viðkvæma
Upphaf málsins hafi verið á þann veg að lögreglu hafi borist símtal í gegnum Neyðarlínu klukkan 08:45 að morgni 31. mars sl. þar sem kærði hafi tilkynnt að A, væri látinn á heimili kærða að Gýjarhóli 2 í Árnessýslu. Símtalið hafi verið hljóðritað og liggi fyrir í gögnum málsins. Þar hafi kærði lýst því að þeir X og A hefðu lent í átökum kvöldið áður eftir að hafa setið við drykkju á heimilinu. Minni kærða af atburðum væri óljóst en hinn látni hafi orðið brjálaður, þeir tekist á en svo hafi rjátlað af hinum látna. Í minningu sinni væri kærði ekki sökudólgurinn, hann talið að greiðst hefði úr þessu um nóttina en fljótt á litið væri hann bara morðingi.
,,Höfuðáverkanir séu þess eðlis að þeir samræmist ekki falláverkum heldur séu sterkar líkur á að þeir hafi hlotist af ítrekuðum hnefahöggum, spörkum/stappi eða höggum með einhvers konar áhaldi. Þá hafi verið bólga og áverkar víðs vegar um andlit hins látna sem bendi til þess að hann hafi verið sleginn ítrekað í andlit. Enn fremur hafi verið verulegir áverkar á hægri síðu hins látna, rifbein margbrotin sem hafi stungist inn í lunga og lifur hins látna. Þessir áverkar séu eftir a.m.k. eitt högg en þó að öllum líkindum vegna endurtekinna högga/sparka.“ Segir m.a. í lögregluskýrslum.
Í frumskýrslu lögreglu komi fram að hinn látni hafi legið á þvottahúsgólfi þar sem töluvert blóð hafi legið frá höfði hans. Stór bogalaga skurður hafi verið á vinstra gagnauga hans, efri vör verið bólgin og töluvert blóð á andliti hans. Við fyrstu skoðun hafi aðrir áverkar á líkama og búk ekki verið sjáanlegir en þegar fötum hafi verið lyft af hinum látna hafi mátt sjá hvar líkblettir hafi verið farnir að myndast.
Þegar lögregla hafi komið á vettvang hafi hún hitt kærða fyrir í anddyri hússins. Í handtökuskýrslu komi fram að blóðrák hafi verið á höfði kærða sem hafi legið frá hvirfli og þvert yfir enni hans. Hægri hönd hans hafi verið sjáanlega blóðug, bæði á handarbaki og á fingrum, þá hafi kærði verið með gleraugu á sér sem fest hafi verið með gúmmíteygju um höfuð hans. Af myndum sem lögregla hafi tekið af andliti kærða megi sjá að blóðslettur séu um allt andlit hans, áberandi blóðtaumur sem liggi um enni kærða en minni slettur víðsvegar um andlit hans allt frá efri vör og upp að kollvikum hans. Þá sjáist áverkar á höfði kærða sömuleiðis. Af vettvangsmyndum megi sjá gleraugu liggja á eldhúsgólfi við fætur hins látna og annað gler þeirra brotið.
Kemur fram að kærði hafi tvívegis gefið skýrslu hjá lögreglu við rannsókn málsins. Hann neiti sök í málinu og neiti að hafa ráðið hinum látna bana af ásetningi. Hann beri því við að sökum ölvunar muni hann ekki eftir atvikum umrætt kvöld og nótt.
Kærði hafi gefið greinargóða lýsingu á atvikum frá því A og B hafi komið í heimsókn á heimili hans undir kvöld föstudaginn 30. mars sl. Þeir hafi borðað saman og drukkið sterkt áfengi bæði fyrir og eftir kvöldmatinn. Þeir hafi setið í eldhúsinu við drykkju og rætt saman um ýmis mál. B hafi dregið sig til hlés og farið að sofa, líklega um kl. 22:00 en kærði og A setið tveir eftir við drykkju. Þeir hafi meðal annars rætt peningalán kærða til A en eitthvað hafi verið komið fram yfir umtalaðan greiðsludag.
Kærði kveðist muna að hann hafi verið orðinn verulega ölvaður en hann muni ekki eftir að hafa lent í átökum við A eða að hafa veitt honum þá áverka sem hafi dregið hann til dauða. Við yfirheyrslu hjá lögreglu föstudaginn 6. apríl sl. hafi kærði greint frá því að hann muni eftir óánægju viðbrögðum frá A þegar kærði hafi þarna umrætt kvöld sagt honum frá áformum sínum um framtíð jarðarinnar og búskapar. Hann muni svo ekki meira fyrr en hann hafi vaknað um morguninn í herbergi sínu.
Aðspurður um áverka sem kærði hafi verið með á höfði og hendi er hann hafi verið handtekinn hafi kærði sagst telja að þeir bentu til að hann hefði lent í einhverjum átökum en hann gæti þó ekki fullyrt neitt um það. Þá væri hann með harðsperrur í hálsinum sem hann hafi talið benda til að hann hefði lent í einhverjum átökum eða verið tekinn hálstaki.
B, sem hafi notið réttarstöðu sakaðs manns við upphaf rannsóknar málsins, hafi gefið skýrslu hjá lögreglu með réttarstöðu vitnis föstudaginn 6. apríl sl. Frásögn hans sé í samræmi við þann framburð sem hann hafi áður gefið hjá lögreglu og samræmist, eins langt og hann nái, framburði kærða um atvik.
Vitnið B hafi gengið til hvílu um kl. 22:00 umrætt kvöld, en þá hafi þeir X og A setið eftir í eldhúsinu. Vitnið hafi ekki heyrt eða orðið var við átök í húsinu eftir að hann hafi farið að sofa. Er vitnið hafi vaknað á níunda tímanum morguninn eftir hafi kærði þegar verið á fótum og greint vitninu frá því að alvarlegur atburður hafi orðið og að A væri látinn.
Ummerki á vettvangi bendi eindregið til þess að til átaka hafi komið. Ítarleg vettvangsrannsókn hafi farið fram og bendi fyrstu niðurstöður til að átökin hafi einkum orðið í þvottahúsi inn af eldhúsi íbúðarhússins þar sem hinn látni hafi legið er lögregla hafi komið á vettvang. Blóðslettur og -ferlar á vettvangi bendi til að um ítrekuð högg/spörk gagnvart hinum látna hafi verið að ræða. Unnið sé að frekari rannsókn og úrvinnslu gagna hvað þetta varðar.
Fyrir liggi bráðabirgðaniðurstaða krufningar á líki hins látna þar sem fram komi að hinn látni hafi verið með fjölda höggáverka víðs vegar um líkamann. Staðsetning, alvarleiki og form áverkanna bendi eindregið til þess að þeir hafi hlotist af völdum árásar. Hinn látni hafi verið með alvarlega höfuðáverka sem hafi leitt til innri blæðinga í höfði sem hafi valdið ógleði, uppköstum og meðvitundarleysi.
Höfuðáverkanir séu þess eðlis að þeir samræmist ekki falláverkum heldur séu sterkar líkur á að þeir hafi hlotist af ítrekuðum hnefahöggum, spörkum/stappi eða höggum með einhvers konar áhaldi. Þá hafi verið bólga og áverkar víðs vegar um andlit hins látna sem bendi til þess að hann hafi verið sleginn ítrekað í andlit. Enn fremur hafi verið verulegir áverkar á hægri síðu hins látna, rifbein margbrotin sem hafi stungist inn í lunga og lifur hins látna. Þessir áverkar séu eftir a.m.k. eitt högg en þó að öllum líkindum vegna endurtekinna högga/sparka.
Að mati lögreglu teljist sterkur rökstuddur grunur um að kærði hafi gerst sekur um að hafa ráðið A bana. Það mat byggi í fyrsta lagi á því að kærði hafi getið þess að eigin frumkvæði sjálfur í símtali til Neyðarlínu er hann hafi tilkynnt um atvikið að hann hefði lent í átökum við hinn látna kvöldið eða nóttina áður. Þá hafi verið áverkar á kærða sjálfum er hann hafi verið handtekinn á heimili sínu að morgni 31. mars sl. sem bendi til þess að hann hafi lent í átökum þá um kvöldið eða nóttina.
Kærði hafi verið með lítinn skurð á augabrún auk þess sem hann hafi verið með áverka á hægra handarbaki sem telja verði sterkar líkur á að hafi hlotist í átökum en réttarlæknir telji útilokað að þeir áverkar séu eftir handjárn lögreglu, líkt og kærði hafi sjálfur fært í tal. Í þriðja lagi hafi rannsókn leitt í ljós að mikið blóð hafi verið á fatnaði kærða þegar hann hafi verið handtekinn á vettvangi.
Staðfest sé af tæknideild LRH að sokkar, buxur og peysa sem kærði hafi klæðst hafi verið blóðug. Magn blóðsins á fatnaði kærða og dreifing þess bendi sterklega til að um sé að ræða blóð frá hinum látna enda liggi fyrir að verulega hafi blætt frá honum á vettvangi. Sýni úr fatnaði kærða og af blóðslettum sem hafi verið í andliti kærða við handtöku verði send til DNA greiningar í Svíþjóð til nánari staðfestingar. Að síðustu bendi bráðabirgðaniðurstöður úr krufningu á líki hins látna til þess að yfirgnæfandi líkur séu á að hann hafi orðið fyrir ofsafenginni líkamsárás sem hafi leitt til dauða hans.
Rannsókn lögreglu hafi leitt í ljós að B, sem handtekinn hafi verið á vettvangi umrætt sinn og notið réttarstöðu sakbornings við upphaf rannsóknar málsins, hafi ekki átt aðild eða aðkomu að þeim átökum sem leitt hafi til dauða hins látna.
Að mati lögreglustjóra sé kærði, eins og áður segi, undir sterkum rökstuddum grun um að hafa síðla kvölds föstudaginn 30. mars eða aðfaranótt laugardagsins 31. mars sl., veist með ofbeldi að A og veitt honum alvarlega áverka með þeim afleiðingum að A lést í kjölfarið. Ætlað brot kærða kunni að varða allt að ævilöngu fangelsi. Lögreglustjóri telji að brot það sem hér um ræði sé þess eðlis að gæsluvarðhald sé nauðsynlegt með tilliti til almannahagsmuna. Óforsvaranlegt sé að kærði gangi laus þegar sterkur grunur leiki á að hann hafi framið svo alvarleg brot sem honum sé gefið að sök. Að mati lögreglu verði að telja kærða hættulegan umhverfi sínu og brot hans þess eðlis að það stríði gegn réttarvitund almennings að hann gangi laus meðan mál hans sé til meðferðar.
Með vísan til alls framangreinds, framlagðra gagna og 2. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, sé þess farið á leit að framangreind krafa um gæsluvarðhald nái fram að ganga. Ekki sé gerð krafa um að kærða verði með úrskurði gert að sæta einangrun eða öðrum takmörkunum í gæsluvarðhaldinu nái krafa þessi fram að ganga.
Þegar litið er til þess sem fyrir liggur um eðli brotsins er á það fallist að ætla megi að varðhald sé nauðsynlegt með tilliti til almannahagsmuna. Öllum skilyrðum gæsluvarðhalds er því fullnægt í málinu. Ekki eru efni til þess að marka gæsluvarðhaldinu skemmri tíma en ákveðinn er í hinum kærða úrskurði eða til 7 maí n.k.
https://gamli.frettatiminn.is/2018/03/04/brodirinn-grunadur-um-manndrap-gyjarholi-ii/
https://gamli.frettatiminn.is/2018/13/04/gaesluvardhaldsurskurdur-stadfestur-gygjarholl-ii/