
Frá vinstri: Christan Leffler, starfandi frkvstj. utanríkisþjónustu ESB, Ine Marie Eriksen Søreide, utanríkisráðherra Noregs, Aurelia Frick, utanríkisráðherra Liechtenstein, Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra og Stefan-Radu Oprea, viðskipta- og nýsköpunarráðherra Rúmeníu (sem fer með formennsku í ráðherraráði ESB um þessar mundir)
Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra undirstrikaði sameiginlegan skilning á upptöku þriðja orkupakkans á fundi EES-ráðsins í Brussel í dag og skoraði á ESB að fella niður tolla á íslenskar sjávarafurðir. Utanríkisráðherrar Íslands, Noregs og Liechtenstein og fulltrúar ESB fögnuðu 25 ára afmæli samningsins um Evrópska efnahagssvæðið á fundinum.
Eftir að formlegum fundi EES-ráðsins lauk tók utanríkisráðherra þátt í pallborðsumræðum á fjölsóttum fundi í tilefni af 25 ára gildistöku EES-samningsins. Mikill samhljómur var í umræðunum um mikilvægi samningsins. „Varla er hægt að hugsa sér meira viðeigandi tilefni til að ræða gildi EES-samnings en á þessum tímamótum. Ég lagði í máli mínu áherslu á hve miklu samningurinn hefði breytt fyrir Ísland enda fylgdu honum ómæld tækifæri, ekki síst fyrir ungu kynslóðina. Eftir að hafa notið ávaxta EES-samningsins í aldarfjórðung hættir okkur til að líta á hann sem sjálfsagðan hlut en það er þó alls ekki svo,“ sagði Guðlaugur Þór að umræðunum loknum.
Sýnt var frá fundinum í beinu vefstreymu á samfélagsmiðlum og er hægt að horfa á upptöku af umræðunum á YouTube-rás EFTA.