Stundin birtir í dag langa grein með upplýsingum um meinta ,,Skæruliðadeild“ sem starfi innan Samherja. Í greininni er vitnað í tölvupósta aðila og starfsmanna innan Samherja og í kynningu á málinu segir ,,Þrír einstaklingar gegna lykilhlutverki í þeirri áróðursvél sem stjórnendur útgerðarinnar Samherja ræstu eftir uppljóstranir um mútugreiðslur til namibískra stjórnmálamanna. Þetta eru Þorbjörn Þórðarson almannatengill, Arna Bryndís McClure Baldvinsdóttir lögmaður og Páll Steingrímsson skipstjóri.
Sá síðastnefndi hefur látið birta í sínu nafni fjölda greina sem Þorbjörn og Arna hafa ýmist skrifað eða ritstýrt. Öll eru þau í beinu sambandi við Þorstein Má Baldvinsson, forstjóra Samherja, Björgólf Jóhannsson, sem tímabundið var forstjóri útgerðarinnar, og Jón Óttar Ólafsson, rannsakanda fyrirtækisins.“
Tilgangur greinaskrifanna sé einna helst að ráðast á blaðamanninn Helga Seljan og trúverðugleika hans sem og Jóhannes Stefánsson, uppljóstrara. Þá segir jafnframt í grein Stundarinnar:
Kalla sig skæruliða
Þessi óformlegi hópur sem virðist potturinn og pannan í málsvörn Samherja kallar sig svo skæruliðadeildina. Í samskiptum þeirra á milli er ítrekað vísað til þessa nafns. „Skæruliðadeildin er alltaf á vaktinni 😉“ segir í einum þessara skilaboða. Aðrir samfélagsmiðlanotendur sem hafa talað máli Samherja eru svo sagðir tilheyra „skuggadeildinni“ og að þeir fái reglulega upplýsingar frá Páli til að nýta. Upplýsingar sem virðast gjarnan eiga uppruna sinn hjá Örnu, Þorbirni eða öðrum starfsmönnum Samherja.
Orðfærið sem notað er í samtölum innan hópsins er líka í anda skæruhernaðar. Ítrekað er talað um að stinga og sparka í fólk. Að stinga Jóhannes eða blaðamenn.
„Vona að Óskar, Bubbi og Þorbjörn standi við það sem þeir hafa sagt við þig, að gefa ekki eftir. Við erum búin að stinga. Nú þarf að snúa og svo salta í sárið,“ skrifar Arna í skilaboðum. „Ef þið Þorbjörn eruð að spá í að stinga Jóhannes þá er hugmynd hér,“ segir hún í öðrum. Páll notar sama orðfæri líka. „Við verðum allavega klár og munum nota hvert tækifæri til að stinga svo mikið er víst 😇😇“ skrifar hann til Örnu, sem og eftir samtal við Björgólf Jóhannsson, þáverandi forstjóra Samherja: „Komdu með þína hugmynd, var að leggja á Bubba og hann vill stungu.“
Skæruhernaðurinn virðist auk Jóhannesar Stefánssonar, uppljóstrara í Samherjamálinu, helst beinast gegn blaðamönnum. Samskiptin sýna til að mynda hvernig Þorbjörn og Arna reyndu að sverta orðspor tveggja færeyskra blaðamanna á Kringvarpinu eftir að heimildarmynd þeirra, Hinir óseðjandi, birtist. Það eru þau Jan Lamhauge og Barbara Hólm.
Hér er hægt að lesa grein Stundarinnar sem er opin bæði áskrifendum sem og þeim sem ekki hafa áskrift.